Mikilvægt er að regluverk sé nægilega sterkt á markaði til að það tryggi að samkeppni sé neytendum til hagsbóta, og komi jafnframt í veg fyrir að áhætta hjá fyrirtækjum færast yfir á skattgreiðendur þegar illa fer.
Jafnframt skiptir máli að fólk sé með það gildismat bak við eyrað, að geta sett sig í spor annarra og taki virkan þátt í lýðræðislegri þróun með þátttöku í kosningum. Fjölmiðlar hafa einnig verulega mikilvægt hlutverk við að veita valhöfum aðhald.
Þetta er meðal þess sem fjallað er um í ítarlegri grein eftir Gylfa Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmann í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í gær, föstudag. Í greininni er fjallað um þætti sem skipta máli fyrir heilbrigðan markaðsbúskap.
„Markaðshagkerfi kallar fram frumkvæði hjá einstaklingum sem sjá hag sínum best borgið með því að stofna fyrirtæki, ráða fólk til starfa og sýna aðhald og frumkvæði í rekstri. Þegar samkeppni er á markaði þá framleiða fyrirtæki þær vörur og þjónustu sem neytendur vilja á hagkvæman hátt.
Vel varinn eignaréttur er nauðsynlegur í markaðshagkerfi og lög og reglur sem tryggja að samningar séu haldnir. Regluverk er einnig nauðsynlegt til þess að bregðast við fákeppni og því að fyrirtæki hagnist á kostnað annarra, t.d. viðskiptabankar sem safna miklum skuldum sem lenda á skattgreiðendum þegar illa fer. Eiginfjárkröfur á viðskiptabanka valda því að eigendur banka hafi hag af því að sýna varkárni.
Lýðræði gerir almenningi kleift að skipta um stjórnvöld þegar í ljós kemur að þessi stjórnvöld séu ekki að huga að almannahagsmunum á fullnægjandi hátt, séu vanhæf og sinni sérhagsmunum. Mikilvægt er að sem flestir sjái sér hag í að greiða atkvæði í kosningum.
Lýðræði þarfnast fjölmiðla sem miðla upplýsingum á hlutlausan hátt og útskýra orsök og afleiðingar hinna ýmsu atburða. Einungis upplýstir kjósendur geta valið sér hæf stjórnvöld sem vernda hag almennings.
Þá skiptir miklu að einstaklingar hafi gildismat og viðhorf þar sem hagur annarra skiptir máli og tillitssemi og virðing fyrir rétti annars fólks sé fyrir hendi eins og Adam Smith lýsti í annarri bók sinni.
Síðast en ekki síst er mikilvægt að fólk hafi hugrekki til þess að fara að sannfæringu sinni, segja hug sinn og óttast ekki viðbrögð samfélagsins,“ segir meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.