Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins, kallar eftir því að kjósendur landsins fái raunverulegan valkost sem snúi að „raunverulegum breytingum á kerfi sem mergsýgur samfélagið að utan sem innan. Valkost sem refsar þeim sem allt vilja fá og ekkert gefa í staðinn. Valkost sem raunverulega er til höfuðs þeim sem neyta að taka þátt í samfélagssáttmálanum. Sáttmála um að allir hjálpist að við að baka brauðið og þeir veikustu fái að borða fyrst.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hans á Facebook í dag. Að mati Ragnars er meðvirkni og uppgjöf þeirra stjórnmálaflokka sem fengið hafa tækifæri síðustu áratugi til að vinda ofan af spillingunni algjör og hann telur erfitt að greina hvort vinstri eða hægri vöndurinn hafi verið þjóðinni harðari.
Í pistlinum segir Ragnar enn fremur að valkosturinn gæti orðið sá að verkalýðshreyfingin fari af stað með þverpólitískt framboð um þessar breytingar. „Valkost sem sameinar þjóðina um þau þjóðþrifamál sem við svo nauðsynlega þurfum að koma í gegn til að einhverra breytinga sé að vænta í nánustu framtíð. Valkost þar sem fólk brýtur odd af oflæti sínu fyrir æðri málstað og komandi kynslóðir. Valkost sem snýst ekki um málamiðlanir. Valkost um stóru málin sem skipta okkur öll máli. Annað má bíða.“
Stóra prófið! Það eru blikur á lofti í íslensku samfélagi eftir fréttaflutning af framferði stórfyrirtækis í...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Saturday, November 16, 2019
Segir Ísland standa frammi fyrir stóru prófi
Pistillinn sem birtist í stöðuuppfærslunni er skrifaður í kjölfar opinberana á viðskiptaháttum Samherja og ber yfirskriftina „Stóra prófið!“.
Þar segir Ragnar að blikur séu á lofti í íslensku samfélagi eftir fréttaflutning af framferði stórfyrirtækis í sjávarútvegi á erlendri grund.„ Samfélagslegum gildum okkar er ógnað. Allir eiga að halda ró sinni því það eru tvær hliðar á málinu. Hver er hin hliðin á þessu viðbjóðslega og ógeðfellda máli? Hver er hin hliðin á græðgi og spillingu? Hin hliðin hefur nú þegar komið fram. Stjórnendur Samherja og strengjabrúður þeirra hafa sýnt það í orði og á borði að iðrun er engin, ENGIN, og allt kapp er laggt í að afvegaleiða umræðuna og skella skuldinni á aðra. Málinu verður bara maklega pakkað inn af háttvirtri „norskri“ lögmannsstofu og bestu almannatenglum sem peningar geta keypt.“
Þetta er ekki bundið við eitt Afríkuríki. Þetta eru nákvæmlega sömu vinnubrögðin og hafa verið stunduð hér á landi, bæði í nútíð og fortíð. Þetta er nákvæmlega sama viðhorfið og við horfðum uppá í fjármálakerfinu sem fórnaði tugþúsundum heimila í eftirmálum hrunsins undir verndarvæng stjórnvalda.
Fólkinu var fórnað eins og að drekka vatn. Sama er viðhorf þeirra sem svindluðu mest á þjóðinni, og gera jafnvel enn, og telja sig jafnvel vera hin raunverulegu fórnarlömb.
Viðhorfið er svo sjúkt og ríkjandi að eftir er tekið á erlendri grund, sem einhvers konar þjóðaríþrótt Íslendinga. Og erum við listuð upp sem fremst á meðal jafningja þegar kemur að peningaþvætti og annarri spillingu.“
Stjórnvöld dofin og þörf fyrir nýjan valkost
Ragnar segir að stjórnvöld séu dofin, úrræðalaus, getulaus og í raun bullandi meðvirk. „Stjórnmálin virðast ekkert geta gert nema stíga á tærnar á sjálfum sér og allir eru voðalega sorgmæddir yfir stöðunni. Leiðir yfir því hvernig fór og leiðir yfir því hversu getulaus við erum í að spyrna við fótum. Stjórnmálin eru kerfin og kerfin eru stjórnmálin. Siðferðið virðst þó vera meira í Namibíu, sem fyrrverandi dómsmálaráðherra gerði svo eftirminnilega lítið úr í greinarskrifum sínum og afhjúpar svo dapurlegt viðhorf þeirra sem fara með valdið. Ráðherrann ætti að líta sér nær í þessum efnum í stað þess að kasta steinum úr glerhúsinu sem hún og flokkur hennar er lokaður inn í.“
Hann spyr hvað það segi um ráðamenn þjóðarinnar að íslensku útgerðarfyrirtækin séu tilbúinn að borga hærra verð fyrir aðgang að auðlindum í Afríku en hér heima, að mútugreiðslunum meðtöldum? „Allt frá einkavinavæðingu ríkiseigna, bankahruninu, peningaþvottavél Seðlabankans til endalausra spillingarmála sem ítrekað skjóta upp kollinum er stóra spurningin, hversu mikið og lengi er hægt að svindla, svíkja og pretta heila þjóð?
Valkostir kjósenda til raunverulegra breytinga eru af mjög skornum skammti og hagsmunaaðilar og peningaöflin ná ávallt yfirhöndinni í aðraganda kosninga, í gegnum rótgróna stjórnmálaflokka, í gegnum fjölmiðla, með lygaáróðri og gylliboðum og tækifærishugsjónum sem víkja um leið og hyllir í bitlinga.
Með öllum ráðum er tryggt að valdastrúktúrinn standi óbreyttur. Standi þannig að niðurstöður kosninga geti aldrei farið á þá leið að ráðandi umbótaöfl nái meirihluta á þingi. Til þess er nóg fyrir hagsmunaöflin að styðja í orði og borði þá valkosti sem líklegastir eru til að þora ekki gegn ríkjandi kerfi og öflum.
Þessir valkostir eru ekkert síður til vinstri en hægri og allt þar á milli.
Meðvirkni og uppgjöf þeirra stjórnmálaflokka sem fengið hafa tækifæri síðustu áratugi til að vinda ofan af spillingunni er algjör. Algjör! Það er jafnvel erfitt að greina hvort vinstri eða hægri vöndurinn hafi verið þjóðinni harðari.“