Útgerðarfyrirtækið Brim hefur sex mánuði til að koma sér undir hámarksþaki í kvótaeign, 12 prósent, eftir nýjustu kaup félagsina á kvóta og útgerðarfyrirtækjum.
Stjórn Brims samþykkti á fundi sínum 14. nóvember samninga um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum í Hafnarfirði, Fiskvinnslunni Kambi og Grábrók. Samanlagt kaupverð nemur rúmlega þremur milljörðum króna, og verður greitt fyrir að hluta með hlutafé í Brimi, sem nemur um einu prósenti af heildarhlutafé. Við þetta heldur Brim áfram að stækka efnahagsreikning sinn og auka umsvif eins og það hefur gert undanfarin misseri.
Tilkynnt var um samninginn fyrst 21. október síðastliðinn. Viðskiptin eru háð samþykki hluthafafundar Brims, Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila. Boðað verður til hluthafafundar í Brimi þann 12. desember.
Fiskvinnslan Kambur gerir út krókabátinn Kristján HF 100 sem var smíðaður í Trefjum hf. í Hafnarfirði á síðasta ári og er búinn öllum tækjabúnaði til veiða og aflameðferðar. Honum fylgir um 2.000 tonna krókaaflamark að mestu í þorski, segir í tilkynningu.
Þá rekur fyrirtækið tæknivædda fiskvinnslu í eigin húsnæði við Óseyrarbraut í Hafnarfirði sem er búin margvíslegum hátæknibúnaði m.a. nýrri vinnslulínu og vatnsskurðarvél frá Völku hf. sem var tekin í notkun á síðasta ári.
Grábrók ehf. gerir út krókabátinn Steinunni HF 108 sem var smíðaður árið 2007. Honum fylgir um 850 tonna krókaflamark að mestu í þorski. Kaupverðið nemur 772 milljónum króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félaganna eru um 4,5 milljarðar.
„Tilgangur kaupanna er að styrkja Brim sem alhliða fyrirtæki í sjávarútvegi. Félagið bætir nú við sig þorskveiðiheimildum, tæknivæddum vinnslueiningum og mannauð sem gerir félagið betur í stakk búið til að takast á við erlenda samkeppni í vinnslu sjávarafurða. Með þessum viðskiptum fer Brim yfir lögbundið kvótaþak í krókaaflamarki og hefur félagið lögum samkvæmt 6 mánuði til að gera ráðstafanir sem koma félaginu undir það þak,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Brim er eina íslenska útgerðarfélagið sem skráð er á markað, en markaðsvirði þess nemur um 77 milljörðum og hefur það aukist um tæplega 30 prósent á einu ári.
Langsamlega stærsti eigandi Brims er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem forstjórinn Guðmundur Kristjánsson, á að stórum hluta.