Þorsteinn Már Baldvinnsson, sem hætti á dögunum sem forstjóri Samherja, hefur óskað eftir því að fá að stíga ótímabundið til hliðar sem formaður stjórnar Síldarvinnslunar.
Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 en Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri félagsins, staðfesti þetta við fréttastofuna.
Björgólfur Jóhannsson tók við sem forstjóri Samherja, af Þorsteini Má, daginn eftir að fréttaskýringarþátturinn Kveikur fjallaði um viðskipti Samherja í Namibíu.
Ingi Jóhann Guðmundsson, sem situr í stjórn félagsins, tekur við sæti stjórnarformanns í stað Þorsteins og Halldór Jónsson kemur inn í stjórn Síldarvinnslunnar.
Samherji er stærsti eigandi Síldarvinnslunnar, með rúmlega 45 prósent hlut. Félagið er meðal fjársterkustu fyrirtækja landsins, en í lok árs í fyrra nam eigið féð 42 milljörðum króna.