Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs, segir að það þurfi að rannsaka DNB-peningaþvættismálið, sem snýst um meðhöndlun bankans á fjármunum frá íslenska fyrirtækinu Samherja, af fullri alvöru. DNB, sem er að stórum hluta í eigu norska ríkisins, þurfi að leggja öll spil á borðið. Þetta kemur fram á á vef norska viðskiptafjölmiðilsins Dagens Næringsliv, eins mest lesna fjölmiðils í Noregi.
Ummælin féllu í samtali Jensen við Dagens Næringsliv eftir að hún hafði flutt ræðu á ráðstefnu um peningaþvætti. Hún minntist ekki á mál DNB og Samherja í ræðunni, en norskir fjölmiðlar segja að það geti verið stærsta peningaþvættishneyksli í bankasögu landsins.
Jensen sagði að það væri ekki hennar hlutverk að ákveða hvort að norska efnahagsbrotadeildin, Økokrim, eða aðrir rannsóknaaðilar ættu að rannsaka málið. Hennar hlutverk væri að setja reglur fyrir fjármálaumhverfið en þegar þær væru brotnar blasi við að það þyrfti að skýra hvað hefði átt sér stað. „DNB verður að hjálpa okkur að komast til botns í þessu. Ég held að það séu hagsmunir DNB líka. Þeir eru stór banki sem upphaflega naut mikils trausts í norsku samfélagi.“
Í umfjöllun Stundarinnar um málið sagði að DNB hefði látið loka bankareikningum félagsins Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum í fyrra. Samkvæmt Stundinni fóru 9,1 milljarður í gegn án þess að DNB vissi nokkurn tímann hver ætti fyrirtækið. Fjármunirnir voru m.a. notaðir til að greiða laun sjómanna Samherja í Namibíu. Málið er nú til skoðunar innan DNB.
Stundin greindi frá því í morgun að félaginu Cape Cod FS hefði verið slitið í byrjun þessa mánaðar. Það gerðist í kjölfar þess að stjórnendum Samherja var gert ljóst að umfjöllun um ætlaðar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu væri í farvatninu.
Í umfjöllun Stundarinnar hefur komið fram að DNB hafi lokað bankareikningum Cape Cod FS í maí í fyrra, í kjölfar þess að bandarískur banki hafði neitað millifærslu frá félaginu. „Ástæðan var meðal annars sú að bankinn fékk ekki upplýsingar um endanlegan eiganda félagsins frá því félagi sem sagður var eigandi þess, JPC Ship Management auk þess sem bankinn sagði í áhættumati að áframhaldandi viðskipti við félagið fælu í sér „of mikla áhættu“ þar sem bankinn vissi ekki hver endanlegur eigandi félagsins var. Bankinn sagðist því ekki hafa „neina vitneskju“ um endanlegan eiganda félagsins en fullyrti þó að félagið væri „ekki lengur undir Samherja.““