Haukur C. Benediktsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.
Haukur kom fyrst til starfa í Seðlabankanum árið 2001 og var til ársins 2006 en var ráðinn aftur til bankans í janúar 2009.
Hann sinnti starfi framkvæmdastjóra Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. frá janúar 2013 allt þar til félagið var lagt niður í febrúar 2019.
Haukur hefur jafnframt sinnt ýmsum stjórnarstörfum í tengslum við vinnu sína, auk þess að sinna kennslu við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Haukur er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í fjármálum og hagfræði frá London School of Economics.
Enn hefur ekki verið skipað í starf varaseðlabankastjóra á sviði fjármálastöðugleika, en ráðningarferlið er í gangi þessi misserin. Vilhjálmur Egilsson er formaður hæfisnefndarinnar sem leggur mat á hæfi umsækjenda.
Með honum skipa nefndina Ásta Dís Óladóttir, lektor við Háskóla Íslands, tilnefnd af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Jacqueline Clare Mallet, lektor við Háskólann í Reykjavík, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.