Afkoma RÚV ohf. á árunum 2013 til 2018 var jákvæð um 1,5 milljarða króna, en sú afkoma skýrðist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili verið neikvæð um 61 milljón króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. orðið ógjaldfært.
Þetta er á meðal þess sem má finna í niðurstöður stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á RÚV sem birt var í dag.
Þar bendir ríkisendurskoðandi enn fremur á að RÚV beri að uppfylla lagalegar skyldur um stofnun dótturfélaga fyir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu. Það hafi RÚV ekki gert þrátt fyrir að lagaákvæði krefjist þess. „Ríkisendurskoðandi bendir á að ekki sé valkvætt að fara að lögum. Það er skylda RÚV ohf. að fara eftir þeim. Sé það aftur á móti vilji stjórnvalda að félagið raungeri ekki ákvæðið ber þeim að stuðla að því að það verði fellt brott úr lögum. Á meðan svo er ekki ber RÚV ohf. að uppfylla lagalegar skyldur sínar.“
Þá er lagt til, til að auka gagnsæi um aðskilnað fjölmiðla í almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar og tryggja fjárhagslegan aðskilnað, að RÚV verði gert að verðmeta auglýsingarými milli dagskrárliða og tekju- og gjaldfæra með viðeigandi hætti.
Margar leiðir til að auka rekstrarhæfi
Kjarninn hefur ítrekað greint frá því á undanförnum árum hvernig RÚV hefur getað aukið rekstrarhæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og framlögum úr ríkissjóði á síðustu árum. Árinu 2017 var afkoma RÚV jákvæð um 321 milljón króna og þar skipti hagnaður af sölu á byggingalóðum í Efstaleiti sköpum, en heildarsöluverð þeirra var um tveir milljarðar króna. Í fyrra var afkoman jákvæð um 2,2 milljónir króna.
Auk þess samdi RÚV í maí við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um að breyta skilmálum á skuldabréfi í eigu sjóðsins sem er tilkomið vegna ógreiddra lífeyrisskuldbindinga. Í samkomulaginu fólst að verulega er lengt í greiðsluferli bréfsins, en lokagjalddagi þess er nú 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025. Samhliða er höfuðstóll hækkaður og vextir lækkaðir úr fimm prósentum í 3,5 prósent. Þetta mun gera það að verkum að greiðsla skuldarinnar mun teygja sig til nýrra kynslóða en fjármagnsgjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtalsvert. Þau voru 282,5 milljónir króna í fyrra.
Umfangsmikill samkeppnisrekstur
Í samkeppnisrekstri RÚV felst aðallega sala auglýsinga og kostunar en einnig útleiga af t.d. myndveri RÚV. Samkeppnisrekstur skilaði RÚV tæplega 2,4 milljörðum króna í tekjur í fyrra sem bættust við þá 4,3 milljarða króna sem fyrirtækið fékk fyrir að sinna almannaþjónustu úr ríkissjóði.
Ríkisendurskoðun kemur með fjórar megin tillögur til úrbóta í úttekt sinni. Sú fyrsta er að RÚV verði að fara að lögum og stofna dótturfélög fyrir aðra starfsemi sína en fjölmiðlun í almannaþágu. Í öðru lagi er RÚV gert að verðmeta réttinn til nýtingar á viðskiptaboðum. Í þriðja lagi að það þurfi að gæta samræmis í eignum ríkisins og í fjórða lagi að efla þurfi fjárhagslegt eftirlit stjórnar RÚV.