Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það sé ekki hægt að fullyrða það að Íslandsbanki verði seldur á þessu kjörtímabili, þar sem að ríkisstjórnin muni ekki selja hann gegn hvaða verði sem er. „En við þurfum líka að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni og endurskoða fyrri áform sem gengu út á að stefna beint að skráningu Íslandsbanka á markað og selja ríkið smátt og smátt niður. Það þarf að skoða ýmsa möguleika en ég er ekki tilbúinn að sitja með hendur í skauti og bíða þess að sólin fari aftur að skína á bankamarkaðinn.“
Þetta segir Bjarni í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag.
Þar segist Bjarni einnig hafa velt því fyrir sér hvort að til greina komi að sameina tvo viðskiptabanka, en ríkið á sem stendur Íslandsbanka og Landsbanka. Eftir því sem hann skoði málið betur þá sjái hann þó fleiri og fleiri vankanta á því. „Ég held t.d. að ef það ætti að vera okkar næsta útspil í þeim efnum þá myndi lítið gerast í þessum málum á komandi árum.“
Bankasýslan lagði til tvær leiðir
Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem birt var í desember í fyrra, var fjallað ítarlega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í ríkisbönkunum, Landsbankanum og Íslandsbanka, og var horft til þess að nota skráðan markað til þess að endurskipuleggja eignarhald með þeim hætti, að dreift og traust eignarhald verði hluti af fjármálakerfinu til framtíðar.
Miðað við orð Bjarna í viðtalinu við ViðskiptaMoggann þá vill hann skoða aðrar leiðir en skráningarleiðina.
Meirihluti landsmanna vill að ríkið eigi banka
Alls eru 61,2 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Fjórðungur þjóðarinnar, 25,2 prósent, hefur enga fastmótaða skoðun á slíku eignarhaldi og einungis 13,5 prósent Íslendinga eru neikvæðir gagnvart slíku eignarhaldi.
Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn sem Gallup vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og birtist með Hvítbókinni. Markmið könnunarinnar var að skoða ítarlega traust til bankakerfisins á Íslandi, hverjar væru helstu ástæður fyrir vantrausti og hvað mætti betur fara. Úrtakið var 1.408 manns 18 ára og eldri af landinu öllu. Þátttökuhlutfall var 54,5 prósent.
Þegar þeir sem eru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka voru spurðir af hverju sögðu 24,4 prósent þeirra, eða tæplega fjórðungur, að ríkið væri betri eigandi en einkaaðili. Fimmtungur sagði að helsta ástæðan væri öryggi og/eða traust og 18,3 prósent vegna þess að arðurinn færi þá til almennings. Þá sögðu 15,7 prósent að helsta ástæða þess að þeir væru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka vera þá að það þýddi að minni líkur væru á því að hlutirnir myndu enda illa og að spilling og græðgi yrði minni.
Þeir sem voru neikvæðir gagnvart því að ríkið væri eigandi viðskiptabanka töldu það ekki vera hlutverk ríkisins né að það væri hæft til þess að eiga viðskiptabanka. Þá væri hætta á spillingu og eignarhald á viðskiptabanka væri þar að auki áhættusamt fyrir ríkið.