Íslenskum fjármálafyrirtækjum sem taka við innlánum sem hafa verið í viðskiptum við Samherja og tengd félög hefur verið gert að veita Fjármálaeftirlitinu (FME) upplýsingar um áhættumat þeirra á Samherjasamstæðunni. Auk þess eiga fjármálafyrirtækin, sem eru að uppistöðu stærstu bankarnir fjórir, að upplýsa eftirlitið um hvernig reglubundnu eftirliti þeirra með viðskiptum við Samherja hafi verið háttað.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þegar hefur verið greint frá því í fjölmiðlum að stjórnir Íslandsbanka, sem er helsti viðskiptabanki Samherja á Íslandi, og Arion banka hafi ákveðið að láta fara fram ítarlega könnun á viðskiptum við Samherjasamstæðuna. Stjórn Landsbankans hefur ekki viljað upplýsa um hvort að slík könnun sé að fara fram. Í Noregi hefur norski bankinn DNB, helsti viðskiptabanki Samherja, fyrirskipað innanhúsrannsókn á viðskiptum hans við Samherja eftir að greint var frá því að reikningar útgerðarfyrirtækisins hjá DNB hafi meðal annars verið notaðir til þess að millifæra um níu milljarða króna frá félagi á Marshall-eyjum.
Kjerstin Braathen, forstjóri DNB, sagði við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í gær að hún útiloki ekki að bankinn hafi verið misnotaður í tengslum við málið. Hún líti málið alvarlegum augum.
Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs, hefur kallað eftir því að DNB leggi öll spil á borðið vegna málsins og yfirmaður peningaþvættiseftirlits DNB sagði upp störfum í haust. DNB hefur opinberlega sagt að það hafi verið vegna skipulagsbreytinga en norskir fjölmiðlar tengja það við það sem átt hafði sér stað vegna fjármagnstilfærslna Samherja.