Á morgun, þann 22. nóvember, fer fram umræðufundur á vegum Gagnsæis, Kjarnans og Blaðamannafélags Íslands um baráttuna gegn alþjóðlegu peningaþvætti. Á fundinum mun Ilia Shumanov, aðstoðarframkvæmdastjóri Rússlandsdeildar Transparency International, halda fyrirlestur um áskoranir peningaþvættis og leiðir til að rannsaka það. Að loknum fyrirlestri verða pallborðsumræður þar sem meðal annars Samherjamálið verður til umræðu.
Í fyrirlestri sínum mun Ilia meðal annars fjalla um þær tegundir peningaþvættis sem spruttu upp í kjölfar hruns Sovétríkjanna og frá fyrri lýðveldum þess og hvernig aðferðir og leiðir hafa verið í stöðugri breytingu og þróun á síðustu árum.
Hann mun jafnframt fjalla um hvernig alþjóðlegir hringir eru oftast einu skrefi á undan yfirvöldum og hvert hlutverk milliliða sé í peningaþvætti. Auk þess mun hann ræða „Blockchain“ og alþjóðlega baráttu gegn peningaþvætti.
Að loknum fyrirlestri Ilia verða pallborðsumræður með þátttöku Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, og Aðalsteins Kjartanssonar, fréttamanni á RÚV, þar sem Samherjamálið og fleiri íslensk dæmi verða til umræðu.
Fundurinn fer fram á efri hæð Sólon frá klukkan 16 til 18 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Vert er að taka fram að fyrirlesturinn verður haldinn á ensku.