Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst með lægra fylgi en mælist með í nýjustu könnun MMR, eða 18,1 prósent. Hann tapar þremur prósentustigum milli kannana.
Miðflokkurinn mælist næst stærsti flokkur landsins og hefur aldrei haft meira fylgi, eða 16,8 prósent. Hann bætir við sig 3,3 prósentustigum milli kannana MMR.
Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 13,2 prósent og lækkaði um 2,1 prósentustig frá síðustu mælingu MMR. Píratar bæta við sig fylgi og eru nú með 10,8 prósent sem er aðeins meira en Vinstri græn sem mælast með 10,6 prósent stuðning. Viðreisn kemur þar á eftir með 9,7 prósent og Framsóknarflokkurinn nýtur stuðnings 9,4 prósent landsmanna.
Fylgi Flokks fólksins mælist nú 6,3 prósent og fylgi Sósíalistaflokks Íslands mælist nú 3,0 prósent. Fylgi annarra flokka mældist 2,2 prósent samanlagt.
Könnunin var framkvæmd 15-22 nóvember og var heildarfjöldi svarenda 1.061 einstaklingur, 18 ára og eldri.