Samruni Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, og Hringbraut, bjargaði síðarnefnda félaginu frá gjaldþroti. Þetta fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem heimilaði samrunann á þeim forsendum að ef ekki kæmi til hans, þá myndi rekstur Hringbrautar leggjast af.
Helgi Magnússon fjárfestir er eigandi Torgs, en hann keypti félagið af Ingibjörgu Pálmadóttur nýverið.
Í reifun á sjónarmiðum Torgs, kemur fram hörð gagnrýni á stöðu mála á fjölmiðlamarkaði og segir að svo geti farið að aðeins ein ríkisrekin fréttastofa verði í landinu. „Á sama tíma sé hlaðið undir rekstur RÚV, með mörg þúsund milljóna króna skattfjárforskoti þess á markaði, á sama tíma sem RÚV sé „stjórnlaust“ á auglýsingamarkaði. Starfsemi RÚV sé að stórum hluta ástæða þess ástands sem til staðar sé á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Yfirvöld í landinu verði að fara að gera sér grein fyrir því að það sé engan veginn sjálfgefið í þessum veruleika að innlendir fjölmiðlar muni starfa áfram. Einn daginn gæti staðan verið sú, ef fram fer sem horfir að í landinu verði ein ríkisrekin fréttastofa,“ segir í umfjölluninni.
Í umsögn Samkeppniseftirlitsins er einnig horft til þess að fjölmiðlanefnd hefði frá árinu 2007 sjö sinnum þurft að grípa til íhlutunar eða tilmæla vegna kostunar dagskrárliða á Hringbraut.
Í umsögninni segir enn fremur að Torg hafi verið rekið réttu megin við núllið undanfarið, en lítið megi útaf bregða og rekstrarumhverfið væri erfitt.