Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), hvetur lágfargjaldaflugfélagið Play, sem hyggst hefja starfsemi í nánustu framtíð, til að birta kjarasamning sem það segist hafa gert um störf flugliða sem það ætlar að ráða. Hún segir fólk sem sækir um störf hjá Play varla fá að vita hver kaup og kjör séu. „Þær vísbendingar sem okkur hafa borist hníga í þá átt að greiða á grunnlaun langt undir því sem almennir kjarasamningar segja til um. Ég hvet fyrirtækið til að birta kjarasamninginn og leggja allt á borðið, ekki aðeins á fólk sem hyggst sækja um störf hjá Play rétt á þessari vitneskju heldur skiptir það okkur öll máli ef verið er að stunda undirboð á vinnumarkaði. Ég ætlast líka til þess að fjárfestar og þeir sem eiga í viðskiptum við fyrirtækið krefji það um þessar upplýsingar. Það verður ekki liðið að fyrirtæki starfi á íslenskum vinnumarkaði með undirboðum.“
Þetta kemur fram í reglulegum föstudagspistli Drífu sem birtur var í morgun.
Minna borgað fyrir meiri vinnu
Því liggur fyrir, samkvæmt þeim tölum, að starfsmenn Play munu fá minna borgað en starfsmenn WOW air fengu og munu vinna mun meira en sambærilegir starfsmenn Icelandair gera. Þetta kom fram í fjárfestakynningu sem Íslensk verðbréfa unnu og kynntu fyrir væntanlegum fjárfestum í Play í upphafi nóvembermánaðar. Kynningin, sem Kjarninn hefur undir höndum, er kirfilega merkt trúnaðarmál.
Í henni kom fram að stjórnendur hins nýja flugfélags hafi lagt mikla „vinnu til að lækka alla kostnaðarliði félagsins umfram þau kjör sem Wow air hafði á sínum tíma.“
Í kynningu Íslenskra verðbréfa sagði að mikil jákvæðni hefði ríkt beggja megin borðsins þegar þessir samningar voru teiknaðir upp. „Þessir samningar eru sambærilegir við það sem flugfélög eru að gera t.d. í Dublin og á öðrum hagkvæmum flugrekstrarstöðum.“
Vandræði með fjármögnun
Síðustu daga hafa fjölmiðlar greint frá því að illa gangi fyrir stjórnendur Play að ná í þann 1,7 milljarð króna sem félagið þarf að sækja í hlutafé til að geta hafið rekstur. Viðskiptahugmyndin á bakvið félagið gengur út á að fá lánsfjármögnun frá breska fjárfestingasjóðnum Athene Capital upp á 40 til 80 milljónir evra og safna ofangreindu hlutafé. Þeir sem leggja til hlutaféð eiga þá að fá helming hlutafjár í Play en stofnendurnir, sem verða lykilstjórnendur félagsins, eiga að fá hinn helminginn án þess að leggja fram fé.
Morgunblaðið greindi frá því í morgun að forsvarsmenn Play reyni nú að kalla saman hóp fjárfesta í íslenskri ferðaþjónustu í von um að ná saman þeim 1,7 milljarði króna sem vantar til að félagið geti fengið flugrekstrarleyfi og hafið starfsemi. Sá fundur eigi að fara fram í dag eða um helgina. Þar sagði einnig að fjárfestar sem Morgunblaðið hafði rætt við segðu að stofnendur Play þyrftu að slá af kröfum sínum um að fá 50 prósent í félaginu ef fjármögnunin ætti að ganga eftir.
Kjarninn hefur áður greint frá því að áætlanir Play geri ráð fyrir mjög hröðum vexti og að félagið verði um 630 milljón dala virði í lok árs 2022, eða um 78 milljarðar króna. Til samanburðar er markaðsvirði Icelandair nú rétt undir 40 milljörðum króna. Fjárfestar sem Kjarninn hefur rætt við telja að þessi áform séu helst til of bjartsýn, enda felast í þeim að fjárfestar eigi að geta 12 til 13 faldað fjárfestingu sína á innan við þremur árum.