Verkfalli félaga Blaðamannafélags Íslands (BÍ) sem starfa á Vísir og vefmiðlum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins, auk tökumanna og ljósmyndara hjá Árvakri, Ríkisútvarpinu, Sýn og Torgi, sem hefjast átti í dag klukkan tíu og standa til klukkan tíu í kvöld, hefur verið aflýst.
Haft er eftir Hjálmari Jónssyni, formanni BÍ, í frétt mbl.is að samninganefnd félagsins telur sig hafa fullreynt að laga lífskjarasamning Samtaka atvinnulífsins að þörfum félagsins og því hafi það eina í stöðunni verið að bera hann undir félagsmenn.
„Við stóðum bara frammi fyrir tveimur mjög slæmum kostum og við völdum þann kost sem við töldum vera skárri. Það var annað hvort að fara með deiluna í mjög erfiðan hnút eða ganga til viðræðna á grundvelli tilboðs sem við fengum frá SA, sem er í grunninn bara lífskjarasamningurinn,“ segir Hjálmar og bætir við að samninganefndin telji að nú sé sá tímapunktur kominn að hleypa félagsmönnunum að borðinu.
„Samninganefndin hefur reynt eins og hún hefur getað en niðurstaðan er þessi, þó hún sé vond og ekki að skapi samninganefndarinnar,“ segir Hjálmar en nánar verður farið yfir ákvörðun samninganefndarinnar með félagsmönnum BÍ í höfuðstöðvum félagsins í hádeginu í dag.
Verkfall dagsins í dag hefði verið þriðja verkfall félagsins en samkvæmt BÍ þá standa áður boðaðar verkfallsaðgerðir sem hefjast eiga þann 28. nóvember 2019 kl. 10 óbreyttar.
Blaðamannafélag Íslands, að höfðu samráði við Samtök atvinnulífsins, hefur aflýst boðuðum verkfallsaðgerðum sem hefjast...
Posted by Blaðamannafélag Íslands on Friday, November 22, 2019