„Kvótakerfið var ekki búið til svo nokkrir einstaklingar gætu orðið ofurríkir. Það var ekki búið til svo þeir fjármunir sem urðu til við aukna verðmætasköpun færu á flakk milli reikninga á aflandseyjum.Það var búið til svo Íslendingar allir gætu notið hagsbóta af öflugum íslenskum sjávarútvegi.“ Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni á miðstjórnarfundi flokksins sem fram fór í dag.
Sigurður Ingi gerði þar meðal annars Samherjamálið að umtalsefni. Hann sagði það hafa skekið samfélagið og að fólk væri eðlilega reitt. „Reitt yfir þessu framferði stórfyrirtækisins sem birtist í umfjölluninni en ekki hvað síst reitt yfir þeim aðstöðumun sem stórfyrirtæki og almenningur búa við.“
Hann sagði að umbætur í sjávarútvegi væru bæði nauðsynlegar og tímabærar og að Framsókn myndi beita sér fyrir þeim. „Því Ísland á að vera land tækifæranna. Og Framsókn er afl umbóta í íslensku samfélagi. Ekki flokkur byltinga. Flokkur umbóta.“
Vill lækka kvótaþak og úthluta kvóta tímabundið
Í ræðunni fór Sigurður Ingi um víðan völl, en mikill þungi var í umfjöllun um sjávarútveg. Hann rifjaði upp að Framsóknarflokkurinn hefði komið að því á sínum tíma að setja kvótakerfið á en Sigurður Ingi sagðist leyfa sér að fullyrða að á þeim tíma hafi engum dottið til hugar að staðan árið 2019 yrði sú að svo fá fyrirtæki væru með svo stóran hlut kvótans. „Og ekki nóg með það heldur farin að banka í hámarksþakið. Það er auðvitað gleðilegt og jákvætt að íslenskur sjávarútvegur sé með þeim fremstu, ef ekki sá fremsti, í heiminum. Það breytir því ekki að umbóta er þörf. Fyrr á árinu var í samráðsgátt stjórnvalda nýtt auðlindaákvæði stjórnarskrár sem er hluti af þeirri markvissu vinnu ríkisstjórnarinnar í umbótum á stjórnarskránni. Ég tel gríðarlega mikilvægt að slíkt auðlindaákvæði sé í stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar.“
Slíkt ákvæði dugi þó ekki eitt og sér heldur verði sátt að ríkja um nýtingu auðlinda þjóðarinnar, þ.e. orku, lands eða fiskimiða. „Árin 2014 og 2015 lagði ég sem sjávarútvegsráðherra í mikla vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða, vinnu sem byggðist á tillögum sáttanefndar þar sem að komu fulltrúar allra stjórnmálaflokka og hagsmunaðilar. Það frumvarp fól í sér að í sjávarútvegsfyrirtæki gerði samning um kvóta til ákveðins tíma, 23 ára, sem undirstrikar eign þjóðarinnar á auðlindinni en gefur sjávarútvegsfyrirtækjunum tækifæri til langtímahugsunar og býr til fyrirsjáanleika. Frumvarpið komst ekki inn til þingsins vegna mikillar andstöðu samstarfsflokksins. Ég tel að grunnur að sátt um sjávarútveginn felist í þessu frumvarpi og því að lækka hámark kvótaþaks, bæði í heildaraflaheimildum og í einstökum tegundum, og vinna þannig að aukinni dreifingu kvóta. Frumvarpið hefði haft mikil áhrif á samfélagið og stuðlað að meiri sátt, meira jafnvægi í samfélaginu.“
Segir sitjandi ríkisstjórn svar við ósk kjósenda
Sigurður Ingi sagði ríkisstjórnina sem nú situr hafa verið svarið við ósk kjósenda um jafnvægi og framsókn í mikilvægum málum. Í kringum kosningar til Alþingis árið 2017 hafi kannanir sýnt að 74 prósent kjósenda hafi viljað sjá Framsókn í ríkisstjórn. „Fólk var orðið þreytt á vígamóðum stjórnmálum og vildi sjá festu og jafnvægi í stjórn landsins eftir erfið ár frá hruni. Á þessum grunni og þeim skýru skilaboðum sem kjósendur gáfu í kosningum þar sem megináherslan var á uppbyggingu innviða samfélagsins sem höfðu látið á sjá í þeim miklu niðurskurðarárum eftir hrunið.[...]Framsókn hefur í þessu farsæla samstarfi við Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokk unnið að heilindum fyrir landsmenn alla að því að koma í framkvæmd þeim stefnumálum sem við settum á oddinn í kosningabaráttunni og ég er stoltur af árangrinum.“
Hann sagði að á Íslandi geti fólk brotist til áhrifa í samfélaginu og eigin lífi hver sem uppruni þess sé. „Að mínu mati er eitt það fallegasta og mikilvægasta við íslenskt samfélag að hér er félagslegur hreyfanleiki einn sá mesti á byggðu bóli, ef ekki sá mesti. Fólki er með öflugu menntakerfi og sterku félagslegu neti gert kleift að láta hæfileika sína blómstra. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir einstaklinginn heldur samfélagið allt að hæfileikar fólks geti verið grunnur að betra lífi, meiri lífsgæðum. Ísland er land tækifæranna. Við erum flokkur umbóta.“