Að undanförnu hafa birst hagspár fyrir næstu þrjú ár sem gera ráð fyrir kyrrstöðu eða samdrætti í hagkerfinu á næstu misserum. Ólíkt því sem var uppi á teningnum á árunum 2015 til 2018, þá munu ekki verða til á bilinu fimm til sex þúsund og fimm hundruð ný störf árlega, heldur mun það verða krefjandi fyrir fyrirtæki að búa til ný störf.
Hagspárnar gefa sér þó ólíkar forsendur, og um margt erfitt að átta sig á því hvernig staða mála mun þróast.
Um þetta er fjallað í grein Jónasar Atla Gunnarssonar, hagfræðings, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Í greininni segir meðal annars:
„Samkvæmt nýjustu þjóðhagsspám má búast við nokkurs konar kyrrstöðu eða samdrátt í landsframleiðslu í ár og endalokum eins farsælasta hagvaxtarskeiðs lýðveldissögunnar. Hins vegar fer því fjarri að allt sé með kyrrum kjörum í íslensku efnahagslífi þótt ekki sé búist við neinum hagvexti á þessu ári. Mikil óvissa ríkir um húsnæðismarkaðinn og ferðaþjónustuna hérlendis auk þess sem blikur eru á lofti í heimsbúskapnum. Með gjaldþroti WOW, vaxtalækkunum Seðlabankans og auknum fjárfestingum hins opinbera hefur hagkerfið tekið miklum breytingum sem mun líklega hafa áhrif á framtíðarþróun þess. Til viðbótar við breytta stöðu ríkir mikil óvissa um húsnæðismarkaðinn og ferðaþjónustuna hérlendis auk þess sem blikur eru á lofti í heimsbúskapnum, en hvort tveggja hefur áhrif á þá kyrrstöðu sem hagkerfið virðist vera í þessa stundina.
Tímamót eða mjúk lending?
Á síðustu tveimur mánuðum hafa Seðlabankinn, Hagstofa, Íslandsbanki, Landsbankinn og ASÍ birt þjóðhagsspár, en í þeim öllum er búist við örlitlum samdrætti í hagkerfinu í ár. Hins vegar, þrátt fyrir töluverðan samhljóm á milli skýrslnanna fjögurra er þó nokkur munur á niðurstöðum þeirra.
Spá Landsbankans er svartsýnust, en í henni er búist við „tímamótum“ í efnahagsmálum með 0,4% samdrætti í landsframleiðslu. Spár Hagstofunnar, Seðlabankans og ASÍ gera aftur á móti ráð fyrir 0,2%-0,3% samdrætti, en ASÍ talar um „mjúka lendingu“ eftir langt hagvaxtartímabil. Samkvæmt spálíkani Íslandsbanka gæti svo landsframleiðslan dregist saman um 0,1%, en bankinn bætir við að sú tala sé ekki tölfræðilega marktæk.
Ekki bara WOW
Einn stærsti áhrifaþátturinn á bak við þessa efnahagslegu kyrrstöðu var gjaldþrot WOW air í apríl síðastliðnum, en farþegum til landsins fækkaði um 13% á fyrstu átta mánuðum ársins. Hins vegar benda hagspárnar á að endalok nýafstaðins góðæris séu ekki einungis tilkomin vegna gjaldþrotsins. Samkvæmt ASÍ og Íslandsbanka voru teikn á lofti um samdrátt í ferðaþjónustu á seinni hluta árs 2018 og hafði ferðamönnum byrjað að fækka strax á fyrsta ársfjórðungi 2019.
Hnattræn kólnun
Samkvæmt Landsbankanum hefur efnahagsástandið á heimsvísu einnig haft sitt að segja um þróunina hérlendis, en bankinn segir samdráttinn á Íslandi vera hluti af „kólnun efnahagsumsvifa í heiminum öllum um þessar mundir“.
Kólnunin yrði sú mesta frá alþjóðlegu fjármálakreppunni árið 2008, ef marka má nýju efnahagsgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem útlit er fyrir minni hagvexti í 90% hagkerfa heimsins í ár.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.