Forseti Namibíu, Hage Geingob, beindi spjótum sínum að Íslandi og Samherja í ræðu sem hann hélt fyrir stuðningsmenn SWAPO-flokksins, helsta valdaflokks Namibíu, í dag.
„Hvaðan koma peningarnir? Þeir koma frá Íslandi,“ sagði Geingob, og bað fólk um að hugsa frekar um þá sem greiddu mútur og stunduðu spillta viðskiptahætti, Íslendinga og íslensk fyrirtæki, sem vandamál, frekar en stjórnkerfi Namibíu.
Í umfjöllun The Namibian, fjölmiðils sem hefur fjallað ítarlega um Samherjamálið, segir að Geingob hafi sagt fjölmiðla hafa einblínt of mikið á stjórnvöld í Namibíu, frá því að Samherjamálið kom upp með þætti Kveiks á RÚV, umfjöllunar Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Um 30 þúsund skjöl sem tengd eru Samherja hafa verið birt í tengslum við málið, á vef Wikileaks, en bókin Ekkert að fela, eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán Drengsson, byggir að stóru leyti á upplýsingum úr gögnunum, auk viðbótar rannsóknarvinnu höfunda.
“They are talking about people being corrupt, but they are not talking about the corrupters. Where does the money comes from?” Geingob questioned, adding that the Icelanders should also investigate corruption in their own country. pic.twitter.com/blPXq7J30t
— The Namibian (@TheNamibian) November 23, 2019
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, var handtekinn í gær í tengslum við rannsókn á spillingu og og ætluðum mútugreiðslum í namibískum sjávarútvegi, meðal annars frá Samherja, að því er fram kom í umfjöllun The Namibian.
Einnig var kaupsýslumaðurinn Ricardo Gustavo handtekinn en hann var samstarfsmaður James Hatuikulipi, sem er einn þeirra sem kallaðir hafa verið hákarlarnir í fréttum af starfsháttum Samherja í Namibíu.
Paulus Noa, framkvæmdastjóri ACC, spillingarlögreglunnar í Namibíu, staðfestir í samtali við fréttastofu RÚV, að þremenninga sé nú leitað og að það séu þeir sem voru kallaðir hákarlarnir í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um Samherjaskjölin; Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, James Hatuikulipi og frændi hans Tamson Fitty Hatuikulipi, sem gegndu framkvæmdastjórastöðum hjá Investec Asset Management. Sá síðarnefndi er tengdasonur sjávarútvegsráðherrans fyrrverandi, eins og fram kom í Kveiki.
Héraðssaksóknari, Fjármálaeftirlitið og skattayfirvöld á Íslandi, eru öll að rannsaka viðskiptahætti Samherja í Namibíu. Þá eru yfirvöld í Noregi einnig að rannsaka ásakanir um skattsvik og peningaþvætti, í tengslum við viðskipti Samherja í Afríku.
Í Namibíu búa 2,5 milljónir manna, en árleg landsframleiðsla nemur um 1.700 milljörðum króna. Til samanburðar eru íbúar á Íslandi um 360 þúsund, en árleg landsframleiðsla á Íslandi var um 2.800 milljarðar króna í fyrra, þrátt fyrir að íbúafjöldinn á Íslandi sé aðeins um 14,4 prósent af íbúafjölda Namibíu.