Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður Pírata, segir að til greina komi að gera frumkvæðisrannsókn á mögulegu vanhæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, vegna Samherjamálsins.
Þetta kom fram í viðtali við Stöð 2.
Á fundi nefndarinnar í morgun komu sérfræðingar til að ræða um ýmis mál sem tengjast hæfisreglum stjórnsýslulaga og ráðherra voru ræddar, en sérfræðingarnar voru ekki að leggja mat á einstaka þætti og hvort Kristján Þór væri vanhæfur.
Sjálfur hefur Kristján Þór sagt að hann muni áfram sinna sínum störfum, og hann telji ekki að hann sé vanhæfur sem ráðherra, þrátt fyrir að hann hafi verið stjórnarformaður Samherja um tíma.
„Okkur hefur ekki borist sú gæfa, eins og nágrannaþjóðum okkar, að ráðherrar setji hagsmuni stjórnsýslunnar, setji hagsmuni ráðuneytisins, framar sínum eigin hagsmunum að fá að sitja áfram í ráðherrastóli. Það snýst ekkert endilega um hvort ráðherrann hefur rétt eða rangt fyrir sér eða hvort það er sanngjarnt eða ekki sanngjarnt að hann fái að sitja áfram í embætti. Það á alltaf að vera stærra heldur en hann sjálfur,“ sagði Þórhildur Sunna í viðtali við Stöð 2.