Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, beindi fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þórs Júlíussonar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag en tilefnið var mótmælafundur sem haldinn var um helgina.
Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu, og hópur almennra borgara og félagasamtaka kröfðust þess sjávarútvegsráðherra segði tafarlaust af sér embætti, að Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna rynni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra. Á fimmta þúsund manns mættu á fundinn.
Halldóra spurði hver viðbrögð ráðherra væru við fundinum og þeim kröfum sem þar voru settar fram.
Kristján Þór svaraði og sagði að hann hefði þegar rætt þetta mál og að viðbrögð hans við mótmælafundinum væru engin sérstök að öðru leyti nema því að hann hygðist vinna sína vinnu með sama hætti og hann hefur gert. „Ég ætla að sinna mínu pólitíska starfi sem og embættisskyldum í ráðuneytinu með nákvæmlega sama hætti og af bestu samvisku. Gæta að hæfi – hvort heldur sem um er að ræða sérstök mál eða þvíumlíkt. Og leggja mig fram um að sinna þeim verkum sem mér hefur verið treyst og trúað fyrir. Það eru viðbrögð mín við þessum fundi,“ sagði hann.
Halldóra kom þá aftur í pontu og benti á að þau hefðu ekki átt samtal um nákvæmlega þetta mál í síðustu viku þar sem mótmælafundurinn hefði verið um helgina. „Þarna komu saman rúmlega fjögur þúsund manns og lýstu yfir vantrausti á ráðherra,“ sagði hún og spurði hvort afstaða Kristjáns Þórs hefði breyst frá því hann sagði við hana í óundirbúnum fyrirspurnartíma í síðustu viku að hann fyndi fyrir trausti. „Hefur afstaða hans breyst? Finnur hann ennþá að honum sé treyst? Og ef ekki hverju margir þurfa að lýsa yfir vantrausti á ráðherra til þess að afstaða hans breytist?“ spurði hún.
Finnur bæði fyrir trausti og vantrausti
Kristján Þór svaraði og sagði að hann fyndi bæði fyrir trausti og vantrausti eins og „við stjórnmálamenn gerum iðulega í okkar störfum.“ Hann sagði að störf stjórnmálamanna væru umdeild, við því væri ekkert að segja. „Við leggjum verk okkar í dóm kjósenda, oftast nær á fjögurra ára fresti og ég treysti mér fyllilega til þess að standa við og undir því trausti sem mér hefur verið sýnt til þess að gegna störfum Norðausturkjördæmi en um leið að taka þátt í störfum Alþingis fyrir alla landsmenn,“ sagði hann.
„Ég ætla bara rétt að vona það að störf stjórnmálamanna á Íslandi verði aldrei á þann veg að þeir verði ekki umdeildir. En ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna það að ég hef engan mælikvarða á það sérstaklega, sem háttvirtur þingmaður virðist hafa hér, hvenær það er kominn tiltekinn fjöldi einstaklinga sem hefur ekki traust á störfum þingmanns. Ég er ekki þeirrar gerðar að hafa slíka talningu á reiðum höndum og þætti vænt um það að háttvirtur þingmaður gæti upplýst mig um þessa undratölu sem hún virðist hafa undir höndum,“ sagði ráðherrann.