Samdráttur var í skráningu erlendra ríkisborgara á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Það sem af er ári hafa 6.279 erlendri ríkisborgarar verið skráðir til landsins en á sama tíma í fyrra voru þeir 8.895. Það er samdráttur upp á 29,5 prósent. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár.
Á árunum 2017 og 2018 átti sér stað metfjölgun erlendra ríkisborgara sem koma hingað til lands til að búa hér. Á því tímabili fjölgaði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 prósent.
Ástæðan er talin vera sú að á Íslandi var mikill efnahagsuppgangur og mikill fjöldi starfa var að fá samhliða þeim uppgangi, sérstaklega í þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu og í byggingaiðnaði. Nú þegar hagkerfið er farið að kólna og spenna að losna þá hefur hægst á fjölgun erlendra ríkisborgara en þeim heldur samt sem áður áfram að fjölga.
Ríkisborgurum frá Venesúela fjölgað um 277 prósent
Alls voru 48.996 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi þann í byrjun nóvember. Flestir erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi eru frá Póllandi eða 20.537 og 4.587 einstaklingar eru með litháískt ríkisfang.
Mesta hlutfallslega fjölgunin á þessu ári var þá hjá ríkisborgurum frá Venesúela eða um 277 prósent frá 1. desember 2018. Í nóvember voru þeir 147 talsins en voru 39 í desember síðastliðnum.
Þá hefur íbúum með frá öðrum Norðurlöndum hefur fækkað hér á landi. Meðal annars hefur dönskum ríkisborgurum fækkað um 3,5 prósent, norskum ríkisborgurum um 6 prósent og sænskum ríkisborgurum um 5,3 prósent. Hins vegar fjölgaði finnskum ríkisborgurum um 2,1 prósent.
Aðfluttir fleiri en brottfluttir á hverju ári
Hagstofan áætlar að íbúar landsins verði 434 þúsund talsins árið 2068 gangi miðspá hennar eftir um þróun mannfjöldans. Til samanburðar var mannfjöldinn 357 þúsund hinn 1. janúar 2019. Í háspá Hagstofunnar er reiknað með að íbúar verði 506 þúsund í lok spátímabilsins en 366 þúsund samkvæmt lágspánni.
Hagstofan spáir jafnframt að fjöldi aðfluttra verði hærri en fjöldi brottfluttra ár hvert til ársins 2068. Það er fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Þá verða íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu áfram fleiri en þeir sem flytja til landsins.