Christine Lagarde, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, segir að gera þurfi miklu meira til að örva fjárfestingu í Evrópu. Alltof lítil fjárfesting, í svo til öllum geirum hagkerfa álfunnar, sé það sem telja megi sem helstu ógnina fyrir efnahagslíf Evrópulanda.
Verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu er 2 prósent, en verðbólga mælist undir 1 prósent í Evrópu. Lagarde sagði í sinni fyrstu ræðu sem bankastjóri Seðlabanka Evrópu, síðastliðinn föstudag, að fjárfesting þyrfti að aukast ef ekki ætti illa að fara.
https://t.co/yZ8bsdhVvP pic.twitter.com/8vgaGJuzua
— Christine Lagarde (@Lagarde) November 22, 2019
Hvatti hún ríkisstjórnir Evrópulanda til að auka fjárfestingu og efla innviði, til að vinna gegn hægagangi í álfunni. Í umfjöllun FT segir meðal annars, að Lagarde hafi sagt nauðsynlegt að auka fjárfestingu í rannsóknum, þróun og menntun, auk þess sem nýsköpun og tækni væri ekki nægilega mikið inn á radar fjárfesta.
Atvinnuleysi í Evrópu hefur farið lækkandi undanfarin misseri, en það mælist nú 6,3 prósent. Mest fór það upp undir 12 prósent árið 2013. Þrátt fyrir að staða á vinnumarkaði hafi batnað, þá hafa áhyggjur af ónægri fjárfestingu og minni umsvifum í ýmsum geirum, valdið vaxandi áhyggjum. Lagarde sagði að aukin fjárfesting, ekki síst hins opinbera, væri rétta svarið við þeim aðstæðum sem uppi væru.