Um hundrað mál eru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara, sem er umtalsvert meira en er að jafnaði, þegar þau eru á bilinu 50 til 70. Af þeim 100 málum sem bíða rannsóknar eru um 60 skattamál. Núverandi starfsmannafjöldi embættisins dugar ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem það þarf að takast á við.
Vegna þessa hefur Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari lagt til að starfsmönnum á rannsóknarsviði embættis hans verði fjölgað um sex í byrjun árs 2020. Hann leggur auk þess til að starfsmönnum verði mögulega fjölgað um tvo til viðbótar síðar á árinu ef verkefnastaða embættisins gefur tilefni til.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Ólafur hefur sent dómsmálaráðuneytinu og RÚV greinir frá í dag. Meðalkostnaður fyrir hvert starf sem við bætist er áætlaður 15 milljónir króna og því myndi fyrsta aukningin kosta um 90 milljónir króna.
Einnig fjallað um aukin umsvif vegna fjármálagreininga
Í minnisblaðinu er einnig fjallað um aukið álag vegna aukinna umsvifa skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, en hún hét áður peningaþvættisskrifstofa og var færð frá ríkislögreglustjóra yfir til embættis héraðssaksóknara sumarið 2015. Þá starfaði einn maður á skrifstofunni.
Í kjölfar þess að alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) gáfu peningaþvættisvörnum Íslands falleinkunn í úttekt sem var birt í apríl 2018 var ráðist í miklar umbættur á starfsemi hennar og starfsfólki fjölgað til muna. Fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan bankanna sjálfra hefur verið eflt. Innleiðing þess kerfis er þó ekki að fullu tilbúin og ekki er búist við því að hún klárist fyrr en á næsta ári. Þrátt fyrir að gripið hafi verið til þess að styrkja skrifstofuna, og annarra margháttaðra ráðstafana til að bregðast við aðfinnslum FATF, endaði Ísland á gráum lista samtakana yfir ríki sem eru ekki búin að gera nóg til að verja sig fyrir peningaþvætti.
Í minnisblaðinu bendir Ólafur á að fjölgun starfsmanna og efling skrifstofu fjármálagreininga lögreglu hafi leitt til fleiri greininga þaðan til rannsóknarsviðs embættisins sem þurfi að rannsaka. Taka þurfti tillit til þess við fjárveitingar.
Það bendir til þess að aukið eftirlit með peningaþvætti hafi þegar skilað því að embætti hérðassaksóknara sé að rannsaka fleiri slík mál en áður, þegar eftirlitið var í molum.
Gátu ekki klárað hrunrannsóknir
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem embættið hefur verið í þeirri stöðu að geta ekki sinnt rannsóknum í málum þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi.
Í október 2018 sagði Ólafur í viðtali á Hringbraut að niðurskurðurinn sem embætti sérstaks saksóknara, sem síðar var breytt í embætti héraðssaksóknara, var látinn sæta árið 2013, upp á 774 milljónir króna, hafi gert það að verkum að ekki var hægt að klára rannsókn á sumum málum tengdum hruninu. „Auðvitað voru þarna nokkur mál sem við hefðum viljað fara betur ofan í sem við höfðum ekki „resource-a“ til að taka.“
Aðspurður um þau mál sem rötuðu ekki í ákæruferli sagði Ólafur að þar væru fyrst og fremst um mál að ræða sem embættið taldi að myndu ekki ná inn í dóm. „Annars vegar var þá hætt rannsókn eða þá mál voru fullkláruð og svo tekið mat á því hvort þau stæðust sönnunarlega séð. Hvort það væru meiri líkindi en minni að það yrði sakfellt í þeim. Í nokkrum tilvikum var það þannig að það þótti ekki vera. Síðan í restina voru farin að koma inn frekari sjónarmið eins og til dæmis tímalengdin, hvað þetta var búið að taka langan tíma. Þar kom inn í að við erum skorin svolítið hressilega niður strax á árinu 2013, sem gerir það að verkum að sumt að því sem við vorum með það náði ekki fram.“
Þegar Ólafur var spurður um það í þættinum hvernig það stæðist jafnræðissjónarmið að sumir einstaklingar slyppu við ákæru, og mögulega dóm, vegna þess að rannsókn á málum þeirra hefði tekið lengri tíma en hjá öðrum eða vegna þess að embættinu skorti fjármagn, svaraði hann því til að það væri eðlilegt að velta þeirri spurningu upp. „En í mjög mörgum tilvikum var um að ræða mál sem beindust að sömu aðilum og áður höfðu fengið dóma og jafnvel voru komnir með fullnýtta refsiramma, upp í sex ár. Þannig að það var í langflestum tilvikum um slíkt að ræða.“