„Litla Ísland gerir meðhöndlun hagsmunatengsla eilítið flóknari en mögulega gengur og gerist í öðrum löndum. Margt bendir hins vegar til þess að það sé ekki einu sinni verið að reyna, vandamálið sé það flókið, að allir eru hvort eð er svo tengdir að það sé aldrei hægt að losa um öll tengsl. Dæmi um hagsmunatengsl sem eru mjög erfið viðureignar eru tengsl löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, nánar tiltekið tengsl framkvæmdarvalds og þeirra sem eiga að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Á Íslandi tíðkast að meirihluti flokka rotti sig saman til þess að ráða öllu, störfum þingsins jafnt sem rekstri ríkisins.
Einnig eru dæmi um afskipti framkvæmdar- og löggjafarvaldsins af öllum stigum dómsvaldsins. Þessi hefð að meirihluti þings taki sér framkvæmdarvaldið brýtur gagngert niður eftirlitshlutverk þingsins vegna þess að það getur aldrei verið meirihlutanum í hag að gagnrýna eigin verk. Því situr minnihlutinn uppi með eftirlitshlutverkið án þess að hafa það ótakmarkaða svigrúm sem þarf til þess að sinna því hlutverki vegna þess að meirihlutinn hefur dagskrárvaldið á þingi. Á þessu eru einungis tvær lausnir, að hefð skapist um minnihlutastjórnir eða að framkvæmdarvaldið fái sjálfstætt umboð í kosningum.“
Svona hefst minnihlutaálit Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata og nefndarmanns í fjárlaganefnd, um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar eftir aðra umræðu um það. Þriðja umræða um fjárlög hefst í dag, þriðjudag.
Sama „stjarnfræðilega sturlaða afstaðan“
Ástæða þess að Björn Leví setur þessi mál í samhengi við fjárlög er að hann teljur dæmi um þau vandamál sem myndast milli þeirrar óljósu skiptingar sem sé á eftirliti og framkvæmdarvaldi vera samskipti meirihluta fjárlaganefndar og ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Björn Leví segir að þetta sé „sama stjarnfræðilega sturlaða afstaða og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sýndi með því að hringja í vin sinn vegna þess sem getur verið stærsta mútumál Íslandssögunnar, til þess að spyrja hvernig honum liði og hver veit hvað annað. Þarna eru hagsmunatengslin látin ráða á kostnað eftirlitshlutverks þingsins og þeirrar ábyrgðar sem ráðherra hefur gagnvart þingi og þjóð.“
Björn Leví segir að mismunandi aðgangur að upplýsingum auki valdaójafnvægið sem nóg sé af milli meirihluta og minnihluta og þegar þingmenn stjórnarflokkanna fái sérstakan aðgang að ráðherra til þess að spyrja um einstök atriði frumvarps til fjárlaga, sem allir þingmenn á Alþingi þurfi að ræða og greiða atkvæði um, þá geti umræðan aldrei orðið á jafnræðisgrundvelli. „Sumir, sem samkvæmt hefðinni um meirihlutavald sinna ekki eftirlitshlutverki, hafa aðgang að upplýsingum sem minnihlutinn á þingi getur ekki notað og ekki upplýst almenning um í nefndarálitum sínum.“