„Þetta er góð leið til að þvætta peninga,“ segir uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, sem lék lykilhlutverk í að opinbera Samherjamálið, í viðtali við norska ríkissjónvarpið NRK þegar hann er spurður að því af hverju Samherja ákvað að vera í viðskiptum við norska stórbankann DNB. Jóhannes starfaði hjá Samherja í Namibíu og hefur játað á sig að hafa framið lögbrot með því að taka meðal annars þátt í að greiða mútur til að tryggja aðgengi að ódýrum kvóta. Auk þess hefur hann sagt Samherja hafa stundað umfangsmikið peningaþvætti og skattasniðgöngu.
Í viðtalinu við NRK segir Jóhannes að þegar peningar séu komnir í norska kerfið og inn í norskt efnahagslíf þá sé spurt færri spurninga þegar þeir eru svo færðir annað, þar sem Noregur hefur gott orðspor á alþjóðavísu og er talið áreiðanlegt. „Þá eru færri spurningar sem vakna frá öðrum löndum um hvaðan peningarnir koma.“
Jóhannes segir í viðtalinu að honum finnist sérkennilegt að DNB hafi ekki spurt fleiri spurninga um notkun Samherja á reikningunum, sem hafi falið í sér tilfærslur á fé frá Namibíu, í gegnum Kýpur og inn á reikninga DNB.
Rannsakað hvort DNB hafi verið misnotað af glæpamönnum
Meint peningaþvætti Samherja í gegnum DNB bankann, sem er að stóru leyti í eigu norska ríkisins, er ein stærsta fréttin í Noregi um þessar mundir. Í gær greindi NRK frá því að DNB hefði svarað fyrirspurn ríkismiðilsins um hvort eigin reglum bankans um varnir gegn peningaþvætti hefði verið fylgt á þann veg að DNB væri að rannsaka málið til að varpa ljósi á staðreyndir þess. „Við munum tryggja að við komumst að öllu sem gæti varpað ljósi á hvort að þjónusta DNB hafi verið misnotuð af glæpamönnum.“
Í gærkvöldi birti Wikileaks ný gögn sem Kveikur, Stundin og NRK eru nú með til umfjöllunar. Þar kemur fram að hættan á peningaþvætti hafi verið kveikjan að því að millifærslur á fjármagni voru stöðvaðar. Taldi að tvö félög í eigu Samherja gætu verið notuð í peningaþvætti.
Bankinn brást hins vegar ekki við áhættumerkjunum, úr eigin eftirliti, fyrr en bandaríski bankinn Bank of New York Mellon stöðvaði millifærslu til Bandaríkjanna í fyrra.
Kveikur og Stundin greindu frá því fyrir rúmum tveimur vikum að Samherji hefði komist hjá því að greiða skatta í Namibíu af þeim hagnaði sem skapaðist af makrílveiðum fyrirtækisins þar, meðal annars með því að færa hagnaðinn til landa þar sem skattar voru litlir eða engir, til dæmis á Kýpur, með viðkomu á eyjunni Máritíus. Allir peningar Samherja voru hins vegar sagðir enda í Noregi, inni á reikningum í DNB.
Í umfjöllun Stundarinnar um málið sagði að DNB hefði látið loka bankareikningum félagsins Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum í fyrra. Samkvæmt Stundinni fóru um níu milljarður í gegn án þess að DNB vissi nokkurn tímann hver ætti fyrirtækið. Fjármunirnir voru m.a. notaðir til að greiða laun sjómanna Samherja í Namibíu. Málið er nú til skoðunar innan DNB.
Slitið í byrjun nóvember 2019
Stundin greindi frá því fyrir skemmstu að félaginu Cape Cod FS hefði verið slitið í byrjun þessa mánaðar. Það gerðist í kjölfar þess að stjórnendum Samherja var gert ljóst að umfjöllun um ætlaðar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu væri í farvatninu.