Greint er frá því í The Namibian í dag, að rannsóknar spillingarlögreglu landsins, ACC, beinist meðal annars að þremur Íslendingum, þeim Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja þar til nýlega, Ingvari Júlíussyni, fjármálastjóra Samherja á Kýpur, og Aðalsteini Helgasyni, sem hætti störfum fyrir félagið árið 2016.
Eins og greint var frá fyrr í dag eru sex í haldi vegna málsins, en búist er við því að þeim verði birt ákæra áður en tveggja sólarhringafrestur rennur út, en innan þess tíma þurfa þeir að koma fyrir dómara, og geta verið lausir gegn tryggingu.
Þeir sem voru handteknir, að því er fram kom í umfjöllun RÚV fyrr í dag, voru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Bernhardt Esau, sem sagði af sér sem sjávarútvegsráðherra á sunnudaginn, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau sem jafnframt er frændi James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem einnig tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum.
Samkvæmt umfjöllun The Namibian beinist rannsókn málsins að mútugreiðslum í skiptum fyrir fiskveiðikvóta í lögsögu Namibíu, en fjallað hefur verið ítarlega um þessi mál í fréttaskýringaþættinum Kveiki á RÚV, í Stundinni, Wikileaks og Al Jazeera, en fréttaskýringarþáttur á síðastnefndu stöðinni, þar sem veiðarnar í Namibíu verða til umfjöllunar, verður sýndur 1. desember. Samtals hafa um 30 þúsund skjöl tengd veiðum Samherja, verið birt á vef Wikileaks.