Sex einstaklingar voru handteknir í dag, í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum og spillingu er tengist úthlutun aflaheimilda í Namibíu.
Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld.
Þeir sem voru hanteknir, að því er fram kom í umfjöllun RÚV, voru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Bernhardt Esau, sem sagði af sér sem sjávarútvegsráðherra á sunnudaginn, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau sem jafnframt er frændi James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem einnig tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum.
Heimilt er að halda þeim í tvo sólarhringa áður en þeir eru leiddir fyrir dómara, en mögulegt er að þeir verði látnir lausir gegn greiðslu tryggingarfjárhæðar. Paulus Noa, yfirmaður ACC, spillingarlögreglu Namibíu, segir að líklega verði þeim birt ákæra á morgun.
Yfirvöld í Namibíu, Íslandi og Noregi rannsaka nú ýmsa þætti sem tengjast starfsemi Samherja í Namibíu, og eru þar á meðal upplýsingar um mútugreiðslur, skattaundanskot og peningaþvætti.
Enginn hefur enn fengið stöðu grunaðs manns á Íslandi vegna þessa, og hafa ekki farið fram neinar formlegar yfirheyrslur vegna rannsóknar mála.