Ekki náðist samkomulag á fundi samninganefndar BÍ og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag. Frá þessu er greint á vef Blaðamannafélags Íslands.
„Því mun boðuð vinnustöðvun vefblaðamanna, ljósmyndara og tökumanna taka gildi á morgun. Vinnustöðvunin mun að þessu sinni standa í 12 tíma, frá kl 10.00 í fyrramálið og fram til 22.00 annað kvöld. Ekki er boðaður samningafundur fyrr en á þriðjudag, en að sögn Hjálmars Jónssonar virðist vera pattstaða þar sem SA sitji enn við sinn keip og tali um það sama og áður. Slíkt hafi hins vegar verið kolfellt í atkvæðagreiðslu meðal blaðamanna og sérstakt að SA geri ekkert með slík skilaboð,“ segir í tilkynningu Blaðamannafélagsins.
Dagurinn var erfiður fyrir marga í blaðamannastéttinni en Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, sagði í dag upp 15 starfsmönnum, mörgu með áratuga reynslu.
„Skilaboðin í hnotskurn eru þessi: EKKERT fer inn á vefinn milli klukkan 10 og 22 og ljósmyndarar og tökumenn fara ekki í tökur! Verktakar vinna ekki, utanfélagsfólk vinnur ekki, fólk í öðrum stéttarfélögum vinnur ekki. Verkfallið nær hins vegar ekki til félaga í Félagi fréttamanna á RÚV eða félaga í Rafiðnaðarsambandinu á Sýn,“ segir á vef Blaðamannafélags Íslands.
Minni fjölmiðlafyrirtæki, eins og Stundin, Kjarninn og Birtingur, hafa þegar samið um kaup og kjör við Blaðamannafélagið og samþykkt kröfur félagsins fyrir félagsmenn.