Vöxtur einkaneyslu mældist 2,1 prósent á þriðja ársfjórðungi en fyrstu þrjá fjórðunga ársins hefur einkaneysla aukist um 2 prósent að raungildi samanborið við sama tímabil fyrra árs. Til samanburðar mældist árlegur vöxtur einkaneyslu 5,5 prósent að meðaltali á fimm ára tímabili, frá 2014 til 2018.
Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag.
Fyrstu níu mánuði ársins jókst landsframleiðslan um 0,2 prósent að raungildi borið saman við sama tímabil árið 2018. Samdráttur í landsframleiðslu mældist 0,1 prósent á þriðja ársfjórðungi sem skýrist einkum af neikvæðum áhrifum utanríkisviðskipta á hagvöxt. Samdráttur í útflutningi á þjónustu vegur þar þyngst en hann mældist 16,7 prósent á tímabilinu.
Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst að raungildi saman um 0,7 prósent milli annars og þriðja ársfjórðungs 2019, samkvæmt Hagstofunni.
Þjóðarútgjöld aukast
Á þriðja ársfjórðungi jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 3,2 prósent. Vöxtur einkaneyslu mældist 2,1 prósent, samneyslu 2,9 prósent og fjármunamyndunar 2,9 prósent. Heildarverðmæti birgða jókst um 9 milljarða króna á verðlagi ársins, sem skýrist aðallega af aukningu í birgðum uppsjávarfisks, sagir í frétt Hagstofunnar.
Þrátt fyrir aukningu í þjóðarútgjöldum dróst landsframleiðslan saman um 0,1 prósent að raungildi á þriðja ársfjórðungi, borið saman við sama tímabil fyrra árs. Skýrist það fyrst og fremst af neikvæðum áhrifum utanríkisviðskipta á hagvöxt, einkum samdrætti í útflutningi á þjónustu. Stærsti einstaki liðurinn í þjónustuútflutningi er ferðaþjónusta.
Samdráttur í inn- og útflutningi
Samdráttur mældist í bæði inn- og útflutningi á þriðja ársfjórðungi 2019 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Útflutningur dróst saman um 12,9 prósent en samdráttur í innflutningi mældist nokkuð minni, eða 8,6 prósent. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 55,5 milljarða króna á tímabilinu, borið sama við 75,8 milljarða króna árið 2018, á verðlagi hvors árs. Vöruskiptajöfnuður var neikvæður um 45,8 milljarða króna á 3. ársfjórðungi 2019. Vöruútflutningur nam 151,4 milljörðum króna og vöruinnflutningur nam 197,3 milljörðum króna á sama tímabili. Þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 101,3 milljarða króna á 3. ársfjórðungi 2019. Á tímabilinu nam útflutningur á þjónustu 222,6 milljörðum króna og innflutningur á þjónustu 121,3 milljörðum króna.
Fjárfesting í íbúðarhúsnæði eykst
Fjármunamyndun jókst að raungildi um 2,9 prósent á 3. ársfjórðungi samanborið við sama tímabil fyrra árs. Samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu mældist 5,4 prósent á sama tímabili og samdráttur í fjárfestingu hins opinbera var 16,5 prósent.
Aukning í íbúðafjárfestingu mældist aftur á móti 53,6 prósent á 3. ársfjórðungi, borið saman við 3,3 prósent samdrátt á sama tímabili árið 2018. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 hefur fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukist um 38% að raungildi, borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2018.
Landsframleiðslan fyrstu níu mánuði ársins 2019 Landsframleiðslan á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 jókst um 0,2 prósent að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2018. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 0,9 prósent. Einkaneysla jókst að raungildi um 2,0 prósent, samneysla um 2,8 prósent en fjármunamyndun dróst saman um 9,1 prósent. Útflutningur dróst saman um 6,8 prósent en innflutningur dróst saman um 9,7 prósent.