Bálfarir verða sífellt stærra hlutfall af útförum hér á landi og æ fleiri vilja dreifa ösku hins látna annars staðar en í kirkjugörðum. Tólf þingmenn úr öllum þingflokkum nema Miðflokknum hafa því lagt fram frumvarp um að að dreifing jarðneskra leifa verði gefin frjáls.
Tvöfalt fleiri óskir um dreifingu ösku
Hlutur bálfara í útförum hér á landi hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í fyrra kom fram að á árinu 2013 voru bálfarir 28,6 prósent af útförum en fjórum árum síðar voru bálfarir 35 prósent af öllum útförum.
Samhliða auknum bálförum hefur færst í vöxt að fólk óski eftir að dreifa ösku utan kirkjugarða. Umsóknum um slíka dreifingu tvöfaldaðist á tímabilinu 2013 til 2018. En samkvæmt núgildandi lögum um kirkjugarða eru ströng skilyrði fyrir dreifingu ösku en sýslumaður getur heimilað að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó ef ótvíræð ósk hins látna um slíkt liggi fyrir.
Enn fremur er óheimilt að dreifa ösku á fleiri en einn stað, sem og að merkja dreifingarstað.
Minni takmörkun á Norðurlöndunum
Þingmennirnir tólf hafa því lagt til að dreifing jarðneskra leifa verði gefin frjáls. Í greinargerð frumvarpsins segir að með lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu sé óhætt að segja að um töluverða opinbera íhlutun sé að ræða þegar kemur að jarðneskum leifum fólks.
Þingmennirnir telja slíka íhlutun ónauðsynlega og engin ástæða sé til annars en að einstaklingar hafi meira frelsi um hvernig og hvort jarðneskar leifar þeirra séu varðveittar, grafnar eða þeim dreift.
Enn fremur segir í greinargerðinni segir að víðast hvar í nálægum löndum sé dreifing ösku ekki takmörkuð eins mikið og hér, til að mynda er varðar staðsetningu eða auðkenningu slíkra dreifingarstaða. Á Norðurlöndunum þekkist að sérstakir skógar séu fyrir dreifingu líkamsleifa og þar megi setja upp minningarskjöld sem ættingjar geta svo vitjað og viðhaldið. Þó eru þar einnig ákveðin skilyrði fyrir dreifingu ösku en þau séu almennt rýmri en hér tíðkast.
Með frumvarpinu er lagt til að áfram þurfi að búa um öskuna í þar til gerðum duftkerum eftir líkbrennslu en gefið verði frjálst hvað gert verður við kerin. Afnumin verður skyldan um að grafa kerin í grafarstæði en sé hins vegar ákveðið að grafa ker í kirkjugarði skal fylgja ákvæði laganna.