„Valið snýst þá um hvort íslenska þjóðin vill fremur eignast eigin börn eða fá börn annarra til þess að fylla í skörðin í atvinnulífinu og sjá fyrir þeim sem eru orðnir gamlir. Innflytjendum fylgir fjölbreyttara mannlíf, þeir koma með aðra siði og venjur og eru yfirleitt dugnaðarfólk.“
Þetta segir í grein Gylfa Zoega hagfræðiprófessors, sem birtist í nýjustu útgáfu Vísbendingar. Í greininni fjallar hann um innflytjendamál og lýðfræði, og hvernig þessi málefni skoðast út frá hagfræðilegu sjónarhorni, bæði á alþjóðavettvangi og á Íslandi.
Í greininni segir meðal annars:
„Í byrjun árs 2018 voru 43.736 innflytjendur á Íslandi sem er 12.6% mannfjöldans skv. tölum Hagstofunnar. Við þetta bætast börn innflytjenda sem voru 4.861 í byrjun 2018, alls voru þetta þá 48.597 einstaklingar sem gerir 13,9% af mannfjöldanum. Af innflytjendum eru Pólverjar fjölmennastir, alls 38,8% allra innflytjenda.
Mikill fjöldi innflytjenda síðustu árin og hærri fæðingartíðni en í flestum öðrum Evrópuríkjum hefur komið í veg fyrir aukna framfærslubyrði af eldri borgurum. Efri hluti myndarinnar hér að neðan sýnir hvernig byrðin – skilgreind sem hlutfall fjölda fólks yfir 65 ár aldri og þeirra sem eru á milli 15 og 64 ára – hefur farið vaxandi annars staðar, mest í Japan, þá í Þýskalandi. Hér á landi er hún lægri og hefur hækkað minna. Hins vegar er því spáð að hún fari vaxandi næsta áratuginn eins og sést á neðri helmingi myndarinnar. Vaxandi hluti þjóðarinn mun þá vera á eftirlaunum.
Hvað er til ráða?
Hver fullorðinn einstaklingur verður að gera það upp við sig hvort hann eða hún vilji eignast börn. Með vaxandi menntun og auknum tækifærum má búast við því að fleiri kjósi að eignast færri börn, jafnvel engin. Þessi þróun er áratuga gömul í Evrópu og hennar er farið að gæta hér á landi. Öldrun samfélaga er hins vegar óæskileg vegna þess að hún bitnar á nýsköpun, sparnaði og fjárfestingu og leiðir þannig til stöðnunar. Lífskjör versna vegna minni hagvaxtar og einnig vegna aukinnar framfærslubyrði af þeim sem eru farnir af vinnumarkaðinum.
Fyrstu viðbrögð gætu verið þau að tengja eftirlaunaaldur við lífslíkur þannig að hann hækki reglulega ef lífslíkur aukast. Þetta hefur lengi verið gert í Danmörku, svo dæmi sé tekið. Með því að hækka eftirlaunaaldurinn er hægt að draga úr aukningu greiðslubyrðar sem stafar að auknu langlífi.
Önnur viðbrögð væru að auka enn fjárhagslegan stuðning við barnafjölskyldur og gera foreldrum ungra barna auðveldar fyrir að sameina þátttöku á vinnumarkaði og uppeldi barna. Hagfræðingarnir Gunnar og Alva Myrdal héldu því fram að sænska velferðarríkið væri hannað til þess að gera vinnandi konum kleift að verða mæður og slík viðhorf hafa fylgt íslenska kerfinu. Æskilegt væri að halda áfram á þeirri braut að skipuleggja fæðingarorlof, leikskóla og grunnskóla með það að markmiði að sem flestir vilji leggja sitt fram við fjölgun þjóðarinnar.
Ef fæðingartíðni hækkar ekki hér á landi á næstu árum og áratugum og langlífi eykst enn frekar mun það kalla á aðflutning erlends vinnuafls. Þessi þróun gerist á hinum Evrópska vinnumarkaði sem Ísland er á þótt engin stjórnvaldsákvörðun sé tekin. Þannig verða litlir árgangar á vinnumarkaði til þess að fyrirtæki ráða erlent vinnuafl eins og þau hafa gert í stórum stíl hér á landi undanfarin ár.
Myndin hér að neðan sýnir tengsl fjölda innflytjenda (sem hlutfall af íbúafjölda) og frjósemi sextán árum áður fyrir 23 ríki frá árunum 1984-2014 (byrjunarár mismunandi eftir löndum). Niðurhallandi samband segir okkur að mestur aðflutningur fólks frá öðrum löndum var þar sem frjósemi var minnst 16 árum áður. Innflytjendur koma þannig í staðinn fyrir þá sem ekki fæddust nærri tveimur áratugum áður.
Valið snýst þá um hvort íslenska þjóðin vill fremur eignast eigin börn eða fá börn annarra til þess að fylla í skörðin í atvinnulífinu og sjá fyrir þeim sem eru orðnir gamlir. Innflytjendum fylgir fjölbreyttara mannlíf, þeir koma með aðra siði og venjur og eru yfirleitt dugnaðarfólk.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.