Mikið áhorf var á þátt Kveiks um Samherjaskjölin sem sýndur var þann 12. nóvember síðastliðinn samkvæmt nýrri könnun MMR en 65 prósent þjóðarinnar horfði á þáttinn. RÚV greinir frá.
Spurt var um áhorf og viðhorf fólks í kjölfar þáttar en mikill meirihluti þeirra sem horfðu á þáttinn svöruðu því til að þátturinn væri vel unninn, eða 86 prósent.
Jafnframt voru 77 prósent aðspurðra sammála því að Kveikur félli vel að hlutverki RÚV og 81 prósent að Kveikur veitti samfélaginu mikilvægar upplýsingar.
Í frétt RÚV kemur fram að samkvæmt þjónustusamningi RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið sé Ríkisútvarpinu gert að láta kanna viðhorf og traust þjóðarinnar með reglubundnum hætti.
Könnunin var framkvæmd af MMR fyrir RÚV dagana 15. til 22. nóvember 2019. Svarfjöldi 1.061 og úrtak Íslendingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi Álitsgjafa MMR.