Sparisjóðirnir munu ekki geta þjónustað viðskiptavini sína með erlendar millifærslur á næstunni og hefur viðskiptavinum sem þurfa að nýta sér slíka þjónustu bent á að gera viðeigandi ráðstafanir hjá öðru fjármálafyrirtæki.
Samstarfsaðili sparisjóðanna getur ekki lengur veitt þessa þjónustu vegna krafna frá erlendum samstarfsaðila hans.
Ástæðan fyrir þessu eru auknar kröfur erlendra fyrirtækja, í tengslum við varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Eins og fram hefur komið - og Kjarninn hefur fjallað ítarlega um - þá er Ísland á gráum lista FATF vegna ónægra varna gegn peningaþvætti.
Íslenskir bankar hafa jafnframt ekki treyst sér til að veita sparisjóðnum þessa þjónustu vegna krafna sinna samstarfsaðila erlendis. „Sparisjóðurinn hefur ekki verið beinn aðili að erlendri greiðslumiðlun og treyst á samstarf innlendra aðila í þeim efnum,“ segir í tilkynningu sem birt hefur verið á vef sparisjóða.
Erlendir samstarfsaðilar íslensku bankanna hafa nú útilokað slíkt samstarf vegna aukinna krafna í tengslum við reglur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Vonast er til þess að þetta verði tímabundið ástand og að sparisjóðirnir geti aftur veitt ofangreinda þjónustu áður en langt um líður.
Ekki verður hægt að millifæra fjármuni eða greiða til erlendra aðila eftir 6. desember á þessu ári, og þá verður ekki hægt að móttaka greiðslur erlendis frá eftir 13. desember, þar sem sparisjóðirnir eiga í hlut.
Það sama gildir um millifærslur á erlendum gjaldmiðli milli banka innanlands þar sem þær greiðslur fara í gegnum erlenda greiðslumiðlun.
Þessi þjónustuskerðing hefur ekki áhrif á aðra þjónustu sparisjóðanna og verður t.d. áfram hægt að kaupa erlendan gjaldeyri, stofna gjaldeyrisreikninga og framkvæma innlendar og erlendar greiðslur með greiðslukortum.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um ónægar varnir í íslensku fjármálakerfi þegar kemur að peningaþvætti.
Í apríl 2018 skilaði FATF, alþjóðleg samtök sem hafa það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, skýrslu um Ísland. Með því að gerast aðili að samtökunum þá skuldbatt Ísland sig til að undirgangast og innleiða þau skilyrði sem samtökin telja að þurfi að uppfyllast.
Í skýrslu FATF fékk peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn. Alls var gerð athugasemd við 51 atriði í laga- og reglugerðarumhverfi Íslands og því hvernig við framfylgjum eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Á meðal þess sem þar kom fram var að íslensk stjórnvöld litu ekki á rannsóknir á peningaþvætti sem forgangsmál. Þeir litlu fjármunir sem settir voru í að koma upp um, rannsaka og saksækja peningaþvætti voru þar lykilatriði. Afleiðingin var meðal annars sú að takmarkaðar skráningar höfðu verið á grunsamlegum tilfærslum á fé utan þess sem stóru viðskiptabankarnir og handfylli annarra fjármálafyrirtækja framkvæma. Þá skorti einnig á að að upplýsingum um hreyfingar á fé og eignum væri deilt með viðeigandi stofnunum í öðrum löndum.
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á jafnvel á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Íslenska ríkið brást við með allsherjarátaki. Ný heildarlög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka voru samþykkt og fjöldi annarra laga og reglugerða voru uppfærð. Þá voru auknir fjármunir settir í mannaráðningar og kaup á kerfum til að bæta það sem FATF hafði sett út á. En það dugði ekki til og Ísland var, líkt og áður sagði, sett á gráan lista og í aukna eftirfylgni, 18. október síðastliðinn.
Uppfært: Klukkan 2:51, var tengli í tilkynningu á www.spar.is bætt við í grein.