Andrew prins átti í viðskptasambandi við Rowland feðga, David og Jonathan Rowland, sem með annars miðaði að því að fjárfesta í sameiningu í gegnum félög í skattaskjólum, og að nýta opinbera stöðu Andrews til að búa til viðskiptasambönd við ríkasta fólk heimsins, meðal annars í miðausturlöndum.
Þá aðstoðaði Andrew Rowland feðga við að kynna bankann þeirra, Banque Havilland í Lúxemborg – sem áður var starfsemi Kaupþings í Lúxemborg – sem fjárfestingakost.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri umfjöllun um viðskiptasamband Andrew og Rowland fjölskyldunnar, í Daily Mail í dag. Umfjöllunin byggir á birtingu á gögnum um viðskiptasambandið, tölvupóstum og fleiri gögnum.
Í umfjölluninni er fullyrt að Andrew hafi gerst sekur um hagsmunaárekstra, ítrekað, og það sé ein ástæða þess að hann hefur nú verið sviptur opinberum störfum sínum sem prins. Samhliða hefur hann átt í vök að verjast vegna ásakana um kynferðislegt samband við stúlkur á barnsaldri, í tengslum við mansalshring auðkýfingsins Jeffrey Epstein, sem svipti sig lífi í fangelsi í New York.
Breska þingið hefur nú þegar brugðist við því sem fram kemur í umfjölluninni, og hafa forystumenn breska Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins, krafist opinberar rannsóknar á viðskiptaháttum Andrew prins og viðskiptasambandi hans við Rowland feðga.
Kaupþing Lúx allt í einu orðið Banque Havilland
Í júní 2009, um átta mánuðum eftir fall Kaupþings, komu nýir fjárfestar og eigendur að starfsemi Kaupþings í Lúxemborg, en þá var Rowland fjölskyldan kynnt sem eigandi bankans. Tekið var fram í tilkynningu að bankinn ætlaði sér að einbeita sér að þjónustu við ríkt fólk í Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu.
Magnús Guðmundsson var fyrsti framkvæmdastjóri bankans, en hann var síðar dæmdur í fangelsi fyrir margvísleg lögbrot í starfsemi Kaupþings, meðal annars umboðssvik og markaðsmisnotkun.
Fyrirspurnir tengdust aðkomu Rowland
Kjarninn hefur sent Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu fyrirspurnir, varðandi viðskipti með kröfur og upplýsingar um kröfuhafa föllnu bankanna, meðal annars til að reyna að sannreyna gögn og samskipti, sem Kjarnanum bárust.
Þar á meðal eru tölvupóstsamskipti þar sem starfsfólk Banque Havilland er að upplýsa Jonathan Rowland, þann sem er í forgrunni umfjöllunar í umfjöllun um Andrew prins, út í viðskipti með kröfur á Kaupþing.
Er í því samhengi fjallað um að Seðlabanki Íslands haldi á kröfunum, en mögulegt sé að ná samningi, þar sem hluti af þóknun muni renna til ráðgefafyrirtækisins Consilum, sem Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var í forsvari fyrir. Einnig er vísað til fundar með Hreiðari, en ekki tilgreint frekar hvaða Hreiðar það er.
Í svari Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans um þessi mál kom fram að Seðlabankinn hefði ekkert fundið sem sýndi fram á neinn samning eða samkomulag, eins og um er rætt í fyrrgreindum tölvupósti. Enginn kannaðist við það sem lýst var í tölvupóstinum.
Kjarninn hefur óskað eftir upplýsingum um starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ), bæði hjá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu – þar sem ESÍ fór síðar yfir í dótturfélagið Lindarhvol – meðal annars til að fá skýrari mynd af því, hvernig viðskiptum með kröfur á föllnu bankanna var háttað, og hverjir það voru sem voru endaeigendur fjármagnsins í sjóðum, sem áttu kröfur á bankanna.
Fyrirspurnirnar snúast líka um að fá nákvæmari upplýsingar um það, hvernig viðskiptin með kröfur áttu sér stað, hverjir komu að þeim og hvað það var sem bjó að baki þeim.
Ekki er hægt að sjá það glögglega í ársreikningum eða tilkynningum félaga, hverjir það eru í reynd sem eru endaeigendur fjármagnsins að baki þeim sjóðum sem voru umsvifamiklir í viðskiptum með kröfur á föllnu bankanna, líkt og þeim sem lýst er í fyrrnefndum tölvupósti til Jonathan Rowland.
Í svörum Fjármálaeftirlitsins, frá því 12. desember í fyrra, við fyrirspurnum Kjarnans varðandi viðskipti með kröfur og endaeignarhald á sjóðum sem áttu kröfur á fallna banka, kemur fram, að eftirlitið hafi kannað eignarhaldið að baki nokkrum sjóðum, þegar mat á hæfi eigenda Arion banka fór fram, samhliða viðskiptum með hlutafé í bankanum.
Meta þarf hæfi þeirra sem fara með virka eignarhluti, lögum samkvæmt.
Í svari FME kom fram, að sjóðfélagar, í sjóðum sem fóru með virka eignarhluti, væru „að stærstum hluta bandarískir styrktar- og fjölskyldusjóðir“ og í tilviki eins sjóðsins, sem fór með virkan eignarhlut, og tengdra aðila, voru sjóðfélagar „að stærstum hluta norður-amerískir og evrópskir stofnanafjárfestar, lífeyrissjóðir, styrktar- og fjölskyldusjóðir.“
Nánari upplýsingar um persónur sem eiga fjármagnið, hafa ekki verið veittar.
„Eins og ítrekað hefur komið fram í samskiptum við þig þá getur Fjármálaeftirlitið ekki veitt ítarlegri upplýsingar en fram koma í fyrrgreindum tilkynningum,“ sagði svo í lok svarsins.
Fyrirspurnunum í fjármálaráðuneytinu hefur ekki öllum verið svarað enn, meðal annars hvort hægt sé að fá afhenta skýrslu sem Ríkisendurskoðun tók saman um starfsemi ESÍ.
Enn fremur hefur verið vísað til ársreikninga ESÍ og Lindarhvols, um almenna starfsemi, í svörum við fyrirspurnum, en ekki hefur verið vilji til að birta öll gögn um starfsemina og viðskipti, og því meðal annars borið við að ekki sé heimilt, lögum samkvæmt, að birta allar upplýsingar sem óskað hefur verið eftir, meðal annars um við hverja var átt við viðskipti og hvernig eignum var ráðstafað, og svo framvegis.
Spjótin beinast að Rowland
Þó margt sé á huldu um starfsemi Banque Havilland, og Íslandstengingu bankans og endurreisn hans á grunni starfsemi Kaupþings í Lúxemborg, hefur Rowland fjölskyldan átt umtalsverð viðskipti við íslenska fjárfesta, einkum eftir hrun fjármálakerfisins.
Rowland fjölskyldan kom einnig að starfsemi MP banka, og var á meðal stærstu eigenda bankans þegar hann var endurreistur eftir endurskipulagningu, árið 2011.