Íslenska bankakerfið er að skreppa saman, og ein ástæðan er sú að innlánafjármögnun er ekki að vaxa í takt við hagvöxt.
Eiginfjárstaða bankanna er sterk en íslenska bankakerfið er lítið hlutfallslega miðað við landsframleiðslu, í alþjóðlegum samanburði.
Fyrirséð að eiginfjárkvaðir bankanna munu lækka um 0,6-1,25 prósentustig á næstu árum vegna innleiðingar á Evrópulöggjöf um afslátt vegna lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og þá er einnig fyrirsjáanlegt að svonefndur sveiflujöfnunarauki verði lækkaður, ef það verður niðursveifla í atvinnulífinu.
Eiginfjárhlutföll Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, sem eru skilgreindir sem kerfislægt mikilvægir bankar, hefur á undanförnum misserum verið á bilinu 22 til 25 prósent, og telst það hátt í alþjóðlegum samanburði.
Þetta kom fram í erindi Ásgeirs Jónsson, seðlabankastjóra, á SFF-deginum, en samantekt á erindi hans má finna á vef Seðlabanka Íslands.
Í erindu sagði hann enn fremur að það væru ýmsir langtímaþættir sem þrýsta á minnkun bankakerfisins. Atvinnulífið verði í auknum mæli að reiða sig á nýjar fjármagnsuppsprettur, sagði hann meðal annars.