Hópurinn sem stendur að stofnun nýja lágfargjaldaflugfélagsins Play hefur boðist til að minnka þann eignarhlut sem hann ætlaði sér að taka í félaginu, takist að fjármagna það, úr 50 prósent í 30 prósent. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag.
Erfiðlega hefur gengið að sækja þann 1,7 milljarð króna sem þarf til að koma Play í starfsemi. Fjármagnið þarf að koma frá nýjum hluthöfum og upphafleg áform stofnenda félagsins gengu út á að þeir myndu fá helming í Play á móti stjórnendunum. Búið er að kynna áformin fyrir stórum hópi fjárfesta, að mestu úr ferðaþjónustugeiranum en einnig fagfjárfestum á borð við tryggingafélögum og lífeyrissjóðum. Á þeim fjárfestafundum hafa áformin verið gagnrýnd fyrir þann stóra hlut sem stjórnendurnir ætla sér í félaginu án þess að leggja til fjármagn, að flugrekstrarreynsla þeirra sé ekki sérstaklega mikil og að mikil væntingabólga sé í rekstraráformunum, sem gera ráð fyrir að fjárfesting væntra hluthafa margfaldist á örfáum árum.
Ætla að gera félagið tvisvar sinnum verðmætara en Icelandair
Kjarninn greindi frá því 8. nóvember síðastliðinn að áform Play gerðu ráð fyrir því að innan þriggja ára verði félagið komið með tíu flugvélar í rekstri og að verðmiðinn á félaginu, miðað við rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIDT.) upp á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða um 12,5 milljarða króna, geti numið um 630 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 78 milljörðum króna, í lok árs 2022.
Til samanburðar er Icelandair, með verðmiða upp á 42,5 milljarða króna, miðað við verðið eins og það var við lokun markaða í gær.
Hafa tryggt sér lánsfé ef þeir tryggja sér hlutafé
Play segist hafa þegar tryggt sér 40 milljón evra, um 5,5 milljarða króna, lánsfjármögnun frá breska fjárfestingarsjóðnum Athene Capital, sem hefur á móti kauprétt á tíu prósent hlut í flugfélaginu. Sú fjármögnun er stækkanleg upp í 80 milljónir evra, um ellefu milljarða króna, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Lánsféð er þó ekki aðgengilegt nema að það takist að safna áðurnefndu hlutafé. Sömu sögu er að segja með flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu, það mun ekki fást nema að sýnt verði fram á rekstrarhæfi.
Að stofnun Play standa Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður fjármálastjóri, Bogi Guðmundsson, sem mun halda utan um sölu-, markaðs- og lögfræðisviðið, og Þóróddur Ari Þóroddsson, sem verður meiðeigandi. Þeir mynda hópinn sem ætlaði sér helmingseign í Play en hefur nú dregið úr þeim væntingum sínum.