Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að þeirri niðurstöðu að RÚV hafi verið heimilt að leyfa umsækjendum um starf útvarpsstjóra að njóta nafnleyndar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.
Þar segir enn fremur að ákvörðun stjórnar RÚV um að birta ekki nöfnin hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar á þeim forsendum að upplýsingalög skylduðu stofnunina til að birta nöfn umsækjenda. Nú hafi það hins vegar verið staðfest að svo sé ekki, þar sem starfsfólk RÚV eru ekki opinberir starfsmenn.
Í tilkynningunni segir að rétt sé að upplýsa að sú ákvörðun stjórnar að birta ekki nöfn umsækjenda hafi verið tekin að vandlega athuguðu máli og með hagsmuni almennings í huga. „Trúnaður um nöfn umsækjenda er að mati ráðgjafa í ráðningamálum mikilvægur til að hámarka gæði umsókna. Slíkur trúnaður dregur ekki úr gagnsæi umsókna og ráðningarferlisins, en eykur þvert á móti trúverðugleika þess gagnvart umsækjendum sem þurfa ekki að taka þá áhættu að starfsumsókn valdi þeim tjóni á öðrum vettvangi.“
Útvarpsstjóri er ábyrgur fyrir daglegri stjórnun RÚV, stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins, og ber ábyrgð á rekstri þess. Það er stjórn RÚV sem ræður hann.
Þann 1. nóvember síðastliðinn var greint frá því að Magnús Geir Þórðarson, sitjandi útvarpsstjóri, hefði verið skipaður þjóðleikhússtjóri. Hann hafði þá setið í Efstaleiti frá því snemma árs 2014 og stjórn RÚV hafði fyrr á þessu ári ákveðið að framlengja fimm ára ráðningartímabil Magnúsar Geirs um önnur fimm ár.
Starfið var auglýst laust til umsóknar 16. nóvember síðastliðinn og frestur til að sækja um það upphaflega sagður til 2. desember. Hann var síðan framlengdur um viku. Stjórn RÚV ákvað að leynd skyldi ríkja um hverjir myndu sækja um. Ákvörðunin var rökstudd þannig að ef það yrði gert opinbert myndu hæfir umsækjendur veigra sér við að sækjast eftir starfinu.
Hæfnikröfur, sem tilteknar voru í auglýsingu, voru háskólamenntun sem nýtist í starfi, en ekki var tiltekið hvaða stigi háskólamenntunar umsækjandi þarf að vera búin að ljúka. Þá var gerð krafa um reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika og góða hæfni í mannlegum samskiptum, skilning og áhuga á nýjum miðlum og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu. Viðkomandi þarf auk þess að vera með þekkingu og reynslu af fjölmiðlum, menningu og samfélagsmálum, þarf að búa yfir góðri tungumálakunnáttu og góðri hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.