Samherji hefur sent frá sér tilkynningu þar sem því er haldið fram að Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem afhenti Wikileaks gögn sem sýna fram á meintar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti fyrirtækisins, hafi verið handvaldir.
Í tilkynningunni segir að Jóhannes hefði haft að minnsta kosti 44.028 tölvupósta í pósthólfi sínu milli áranna 2014 og 2016. „Hann afhenti Wikileaks 18.497 tölvupósta frá þessu tímabili sem þýðir að hann afhenti aðeins 42% af tölvupóstunum. Flestir þeirra pósta sem Jóhannes afhenti ekki eru frá árinu 2015 en hann virðist ekki hafa afhent Wikileaks neina tölvupósta frá því ári ef undanskildir eru nokkrir póstar frá janúar.“
Í tilkynningu Samherja er það gert tortryggilegt að 58 prósent af tölvupóstum Jóhannesar hafi ekki verið birtir. „Þeir fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið þurfa líka að velta fyrir sér hvort þeir hafi aðeins séð þau gögn sem styðja frásögn heimildarmannsins en ekki heildarmyndina.“
Rúmar þrjár vikur eru frá því að Kveikur og Stundin birtu fyrstu umfjallanir sínar sem byggðu meðal annars á gögnum frá Wikileaks og vitnisburði Jóhannesar. Í byrjun síðustu viku hófust að birtast tilkynningar á heimasíðu Samherja þar sem umfjöllun miðlanna, og tiltekinn fréttamaður sem vann að henni,hafa verið gerð tortryggileg. Þær hafa verið fimm talsins frá 26. nóvember. Í engri þeirra hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á að ásakanir á hendur fyrirtækinu séu ekki réttar.
Í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar var fjallað um viðskiptahætti Samherja í Afríku, nánar tiltekið í Namibíu, á síðustu árum á meðan að fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í landinu. Það var gert með mútugreiðslum til tveggja ráðherra í landinu og annarra manna úr þeirra nánasta hring.
Auk þess var fjallað um meinta skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja í umfjöllun miðlanna.
Á mánudag var greint frá því að Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og þrír aðrir hafi verið ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Málefni Samherja eru auk þess til rannsóknar hjá norskum yfirvöldum og hjá héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra á Íslandi.