Blaðamenn, ljósmyndarar og tökumenn sem starfa við prentútgáfur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins munu að óbreyttu fara í verkfall á morgun, fimmtudaginn 5. desember, sem á að standa yfir frá klukkan 10 að morgni og til klukkan 22 að kvöldi. Frá þessu er greint í frétt á vef Blaðamannafélagsins.
Um verður að ræða fyrstu vinnustöðvunina sem beinist að prentmiðlum í kjaradeilu Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Fyrri þrjár vinnustöðvanir félagsmanna Blaðamannafélagsins tóku eingöngu til netmiðla og þeirra sem starfa við þá.
Félagsmenn í Blaðamannafélaginu kusu um nýjan kjarasamning í síðustu viku og felldu hann með afgerandi hætti. Ríflega 70 prósent þeirra sem greiddu atkvæði um hann felldu samninginn. Með því að samþykkja samninginn, án þess þó að stjórn eða framkvæmdastjóri Blaðamannafélagsins væri tilbúin til að mæla með honum, þá frestaði samninganefnd Blaðamannafélagsins fyrstu vinnustöðvun sem beinast átti að prentmiðlum. Fyrir vikið gátu stóru prentmiðlarnir tveir komið út blöðum sínum áfallalaust síðastliðinn föstudag, svokallaðan „svartan föstudag“, sem er einn stærsti auglýsingatekjudagur ársins.
Fréttablaðið, fríblað sem er gefið út sex sinnum í viku og dreift í 80 þúsund eintökum, er mest lesni prentmiðill landsins. Samkvæmt könnun Gallup lásu 37,5 prósent landsmanna miðilinn í október síðastliðnum. Lestur á Fréttablaðinu hefur minnkað hratt á undanförnum árum. Hann fór niður fyrir 60 prósent síðla árs 2011, undir 50 prósent í nóvember 2015 og undir 40 prósent í ágúst í fyrra.
Lestur Morgunblaðsins, stærsta áskriftarblaðs landsins, hefur einnig dregist hratt saman á undanförnum áratug en hann fór undir 40 prósent í júlí 2009, undir 30 prósent um mitt ár 2014 og stendur nú í 22,6 prósentum. Það er minnsti lestur sem mælst hefur á Morgunblaðinu frá upphafi mælinga.
Lestur stóru dagblaðanna er enn minni þegar horft er á lestur þeirra sem eru á aldrinum 18 til 49 ára, eða fullorðinna undir fimmtugu. Í þeim hópi lesa 27,6 prósent Fréttablaðið en 12,7 prósent Morgunblaðið.
Áhyggjur af verkfallsbrotum
Blaðamannafélagið hefur ásakað Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, um að hafa stundað verkfallsbrot þegar fyrri verkfallsaðgerðir hafa staðið yfir. Blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is sendu frá sér yfirlýsingu vegna meintra verkfallsbrota á miðlinum þann 8. nóvember síðastliðinn. Þeir lýstu yfir vonbrigðum með það framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem birtust á miðlinum. Starfsmennirnir ítrekuðu yfirlýsinguna þann 15. nóvember þegar fréttir birtust á miðlinum á meðan verkfallsaðgerðum stóð.
„Um leið og blaðamenn á mbl.is lögðu niður störf í morgun tóku nokkrir blaðamenn á Morgunblaðinu, sem að öllu jöfnu skrifa ekki fréttir á mbl.is, til við að skrifa fréttir á mbl.is. Að auki voru fyrrverandi sumarstarfsmaður og lausapenni á Morgunblaðinu kallaðir til til þess að skrifa fréttir á mbl.is á meðan þeir blaðamenn miðilsins, sem voru á vakt á þessum tiltekna tíma, lögðu niður störf í samræmi við löglega boðaðar aðgerðir sem stóðu til klukkan 14,“ sagði í yfirlýsingunni.
„Við undirrituð blaðamenn og fréttastjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is lýsum yfir vonbrigðum með þetta framferði og þau viðhorf til löglega boðaðra aðgerða sem þarna birtast. Við teljum að þetta framferði sé til þess fallið að varpa rýrð á mbl.is, ekki síst þá blaðamenn sem þar starfa og leitast eftir fremsta megni við að sinna starfi sínu af heilindum og fagmennsku. Að okkar mati er þetta síst til þess fallið að finna vænlega lausn á kjaradeilunni sem nú stendur yfir.
Með því að senda þessa yfirlýsingu viljum við að það komi skýrt fram að þær fréttir og umfjallanir, sem skrifaðar voru og birtar á mbl.is á meðan á löglega boðuðum aðgerðum félaga í Blaðamannafélagi Íslans stóð, eru ekki á okkar ábyrgð,“ sagði að lokum í yfirlýsingunni en undir hana skrifuðu 17 blaðamenn og fréttastjórar.
Margir þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsinguna misstu vinnuna í síðustu viku þegar alls fimmtán manns var sagt upp hjá Árvakri.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði í frétt sem birtist á vef félagsins á föstudag að „nokkrir starfsmenn Árvakurs hafa séð sóma sinn í því að brjóta löglega boðaðar verkfallsaðgerðir Blaðamannafélags Íslands og þannig vegið að samstarfsfólki sínu á vinnustaðnum og lögum landsins. Að óreyndu hefði því ekki verið trúað. Slíkt geðslag virðist benda til þess að viðkomandi viðurkenni ekki rétt fólks til að bindast samtökum í félögum til framgangs kröfum sínum. Það er með miklum ólíkindum.“