Í bréfi til starfsmanna Samherja, sem Björgólfur Jóhannsson, sitjandi forstjóri fyrirtækisins, skrifar undir, er opinberun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera á meintum mútugreiðslum, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja sögð „víðtæk árás á félagið.“ Það sé ekki á hverjum degi sem sótt sé að fyrirtækinu af þeirri hörku sem sést hafi í fjölmiðlum síðustu vikur.
Þar segir Björgólfur, sem tók við forstjórastarfinu af Þorsteini Má Baldvinssyni þegar hann steig til hliðar tímabundið vegna málsins, að það sjáist þegar að stór hluti þeirra ásakana sem settar hafi verið fram á hendur Samherja eigi ekki við rök að styðjast. Síðan endurtekur hann efni tilkynninga sem Samherji hefur sent frá sér á síðustu tveimur vikum þar sem fyrirtækið hefur sagst leiðrétta fréttir, án þess þó að birta nokkur gögn eða annars konar sönnun fyrir því að umfjöllun miðlanna sem um ræðir hafi verið röng. Í bréfinu er annars vegar nefnt umfjöllun um félagið Cape Cod FS, sem Samherji segist aldrei hafa átt.
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV og ritstjóri Kveiks, sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem hún sagði að Samherji væri að reyna að afvegaleiða umræðu um fyrirtækið vegna umfjöllunarinnar.
Kallar umfjöllun fjölmiðla „víðtæka árás“
Í bréfi Björgólfs segir hins vegar að sú „staðreynd að Samherji átti aldrei félagið Cape Cod FS þýðir í reynd að enginn fótur er fyrir ásökunum um peningaþvætti sem settar hafa verið fram vegna greiðslna til félagsins. Lögmenn Samherja hafa fundað með bæði skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara og hafa afhent embættunum öll gögn um þetta. Þá funduðu lögmenn frá Wikborg Rein einnig með héraðssaksóknara og hafa verið í samskiptum við norsku efnahagsbrotadeildina Økokrim í Osló.“
Þá vitnar hann í tilkynningu frá Samherja sem birt var í gær þar sem fyrirtækið hélt því fram að tölvupóstar sem Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem afhenti Wikileaks gögn sem sýna fram á meintar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti fyrirtækisins, hafi verið handvaldir. Þetta var rökstutt með því að hann hefði ekki ahent 58 prósent af þeim póstum sem verið höfðu í tölvupósthólfi hans hjá Samherja. Engar tilraunir voru þó gerðar til að hrekja það sem kemur fram í þeim póstum sem Jóhannes lét Wikileaks hafa, og eru nú aðgengilegir öllum á internetinu, en þeir, og fylgigögn þeirra, eru grundvöllur þeirra ásakana sem settar hafa verið fram á hendur Samherja.
Tilkynningu Samherja frá því í gær var fylgt eftir með forsíðufrétt í Fréttablaðinu í dag þar greint var frá því, samkvæmt heimildum blaðsins, að Samherji ætlaði sér að birta „Namibíupósta“ Jóhannesar sem hefðu ekki þegar verið birtir. Í frétt Fréttablaðsins var rætt við Björgólf sem vildi ekki staðfesta fréttina.
Í niðurlagi bréfsins segir Björgólfur: „Samherji er um þessar mundir að greina fleiri ásakanir á hendur félaginu en þær sem nefndar eru hér framar. Margar þeirra eru mjög alvarlegar en enn sem komið er hefur aðeins verið sagt frá annarri hlið þeirra í fjölmiðlum. Það er erfitt fyrir félagið og starfsmenn að sitja þegjandi undir þessu. Þið getið treyst því að við munum svara öllum þessum ásökunum. Ég bið ykkur hins vegar um skilning því þetta mun taka tíma.
Meintar mútugreiðslur, þvætti og skattsvik
Rúmar þrjár vikur eru frá því að Kveikur og Stundin birtu fyrstu umfjallanir sínar sem byggðu meðal annars á gögnum frá Wikileaks og vitnisburði Jóhannesar. Í byrjun síðustu viku hófust að birtast tilkynningar á heimasíðu Samherja þar sem umfjöllun miðlanna, og tiltekinn fréttamaður sem vann að henni, hafa verið gerð tortryggileg. Þær hafa verið fimm talsins frá 26. nóvember. Í engri þeirra hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á að ásakanir á hendur fyrirtækinu séu ekki réttar.
Í yfirlýsingum sem Samherji hefur birt á heimasíðu sinni síðustu tæpu tvær vikur hefur ekkert verið fjallað efnislega um hvað ætti að hafa verið í þeim tölvupóstum Jóhannesar sem ekki hafa verið birtir.
Í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar var fjallað um viðskiptahætti Samherja í Afríku, nánar tiltekið í Namibíu, á síðustu árum á meðan að fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í landinu. Það var gert með mútugreiðslum til tveggja ráðherra í landinu og annarra manna úr þeirra nánasta hring.
Auk þess var fjallað um meinta skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja í umfjöllun miðlanna.
Á mánudag var greint frá því að Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og þrír aðrir hafi verið ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Málefni Samherja eru auk þess til rannsóknar hjá norskum yfirvöldum og hjá héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra á Íslandi.