Kostnaður vegna starfslokasamnings sem dómsmálaráðherra hefur gert við Harald Johannessen, sem samdi nýverið um að hætt sem ríkislögreglustjóri, er 47,2 milljónir króna án launatengdra gjalda. Þegar þeim er bætt við er kostnaðurinn 56,7 milljónir króna. Þetta kemur fram í svarið dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn fjárlaganefndar vegna starfsloka Haraldar sem birt var í dag.
Í svarinu segir að ef Haraldur hefði setið út skipunartíma sinn, sem átti að ljúka 28. febrúar 2023, hefði þurft að greiða honum 80,5 milljónir króna í laun án launatengdra gjalda, en 104,7 milljónir króna með þeim. Fjárhæðir samningsins hljóði því upp á 54 prósent af kostnaði við laun út skipunartímann að teknu tilliti til launatengdra gjalda.
Ráðherra ekki heimilt að reka hann
Í frétt á stjórnarráðinu segir að frumkvæðið að starfslokunum hafi komið frá Haraldi sjálfum og að enginn annar grundvöllur hafi verið að þeim.“ Ráðherra hafi ekki verið heimilt að víkja Haraldi úr starfi þar sem embættismenn njóti sérstaklega ríkrar réttarverndar á grundvelli stjórnarskrárinnar og ákvæða í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.
Í svarinu kemur einnig fram að ekki sé gert ráð fyrir sérstakri fjármögnun vegna samningsins heldur rúmist hann innan fjárveitinga málaflokksins.
Þar er einnig sagt, vegna umræðu sem átti sér stað í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær, að ummæli á þá leið að „verið sé að „kaupa“ HJ frá starfi eiga í sjálfu sér við um alla starfslokasamninga hvort heldur sem er hjá einkaaðilum eða opinberum aðilum, kjósi menn að orða hlutina með þeim hætti“.