Ellefu hagsmunasamtök á vinnumarkaði hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu, þar sem segir að ekki sé hægt að samþykkja frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í núverandi mynd.
Um er að ræða frumvarp sem nú liggur fyrir um breytingu á búvörulögum og tollalögum.
Á meðal samtaka sem standa að yfirlýsingunni eru Félags atvinnurekenda og Bændasamtök Íslands. „Nauðsynlegt er að vinna málið áfram og finna því heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. Undirritaðir aðilar vilja gjarnan koma að þeirri vinnu,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.
Samtökin sem skrifa undir yfirlýsinguna eru Bændasamtök Íslands, Félag atvinnurekenda, Félag eggjabænda, Félag kjúklingabænda, Félag svínabænda, Landssamband kúabænda, Landssamband sauðfjárbænda, Neytendasamtökin, Samband garðyrkjubænda, Samtök iðnaðarins og Sölufélag garðyrkjumanna.
Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með hliðsjón af tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara.