Landsréttur mildaði í dag dóm yfir Jóhannesi Baldurssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis og sýknaði Pétur Jónasson, sem starfaði á sviði eigin viðskipta.
Ástæðan fyrir mildun refsingar fyrir Jóhannes, sem var skilorðsbundin að öllu leyti, var meðal annars óhóflegur dráttur á málsmeðferð ástæðan fyrir því. Í héraði hafði Jóhannes fengið 12 mánaða fangelsinsdóm, ofan á 5 ára dóm hann hafði hlotið áður.
Pétur hafði fengið sex mánaða dóm, fyrir sinn þátt í málinu, en var sýknaður, eins og áður segir.
Í héraði voru allir sakborningarnir í upphaflega málinu, Lárus Welding fyrrverandi forstjóri bankans, Jóhannes, og þrír fyrrverandi miðlarar, Jónas Guðmundsson, Valgarð Valgarðsson og fyrrnefndur Pétur, sakfelldir.
Í Landsrétti var hins vegar aðeins fjallað um mál Jóhannesar og Péturs, en þeir voru þeir einu sem áfrýjuðu málinu.
Í dómi Landsréttar er fjallað um drátt á málsmeðferð, og sagt að ekki hafi komið fram skýringar á því hvers vegna þessi dráttur á málsmeðferð varð. „Tæplega níu ár eru síðan Fjármálaeftirlitið kærði brot ákærða til sérstaks saksóknara. Þá hefur ákæruvaldið ekki getað gefið skýringu á því af hverju tæp fimm ár liðu frá því að kæran barst til sérstaks saksóknara þar til ákæra í málinu var gefin út. Innan við hálft ár leið frá kæru Fjármálaeftirlitsins í sambærilegu máli vegna Landsbanka Íslands hf. og kæru Fjármáleftirlitsins í þessu máli. Þrátt fyrir það liðu þrjú ár frá því að ákæra var gefin út í fyrrgreinda málinu þar til ákæra var gefin út í þessu máli. Kom raunar ekki til útgáfu ákæru í þessu máli fyrr en máli vegna Landsbanka Íslands hf. hafði lokið með dómi Hæstaréttar. Með hliðsjón af hinum miklu og óútskýrðu töfum er óhjákvæmilegt að binda refsinguna skilorði svo sem í dómsorði greinir,“ segir í dómnum.