Samfélag Namibíumanna í Bandaríkjunum vilja að íslensk stjórnvöld biðji namibísku þjóðina afsökunar vegna Samherjamálsins og að þau láti Samherja „skila peningunum til namibísku þjóðarinnar.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hópurinn afhenti Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Washington, fyrr í dag. Greint er frá fundinum og yfirlýsingunni á facebook-síðu samfélags Namibíumanna í Bandaríkjunum.
#Fishrot corruption scandal being fought from Washington, DC, USA. This effort is spearheaded by a Namibian,...
Posted by Namibian Community USA on Friday, December 6, 2019
Í yfirlýsingunni segir að hópurinn viti til þess að margir, sérstaklega Vestur-Evrópumenn, haldi að spilling sé viðtekin venja í Afríku og sé jafnvel í erfðaefni þeirra þjóða sem sé að finna í álfunni. Síðan er vitnað í ummæli Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í frétt á vef Guardian nokkrum dögum eftir að Samherjamálið var opinberað þar sem haft var eftir Bjarna að spilltum stjórnvöldum í Namibíu sé hugsanlega um málið að kenna. „Veik ríkisstjórn, spillt ríkisstjórn í þessu landi. Sem virðist vera undirliggjandi vandamál sem við sjáum núna.“
Hópurinn segist ekki vera sammála þessari fullyrðingu og hann hafi komið á fund sendiherrans til að koma því á framfæri. Namibíska þjóðin sé þvert á móti harðdugleg. Flestir landsmenn lifi þó í mikilli fátækt og njóti ekki ávaxta af spilltum gjörðum fámenns hóps í landinu.
Í yfirlýsingunni samfélags Namibíumanna í Bandaríkjunum segir að Samherji hafi ekki greitt skatta í Namibíu heldur þess í stað mútað sex einstaklingum til að komast að kvóta og svo haldið eftir hagnaðinum fyrir sig sjálfa og Ísland. Spillt framferði Samherja hafi rænt namibísku þjóðinni tækifærinu af því að njóta afraksturs af nýtingu náttúruauðlinda í landinu.
Mútur, peningaþvætti og skattasniðganga
Kveikur og Stundin greindu frá því í nóvember að Samherji lægi undir grun um að hafa greitt mútur til að tryggja aðgengi að ódýrum kvóta í Namibíu. Auk þess hefur er grunur um að Samherji hafi stundað umfangsmikið peningaþvætti og skattasniðgöngu. Málið byggir á frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar, sem starfaði hjá Samherja í Namibíu og hefur sjálfur viðurkennt að hafa tekið þátt í umfangsmiklum lögbrotum fyrirtækisins, og gríðarlegu magni af gögnum sem hann lét Wikileaks í té. Þau gögn eru nú aðgengileg á internetinu. Al Jazeera sjónvarpsstöðin tók einnig þátt í opinberuninni og birti sinn hluta hennar í síðustu viku.
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjórir aðrir menn voru nýverið ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Samherjamálið er einnig til rannsóknar í Noregi, þar sem fyrirtækið hefur verið í bankaviðskiptum við DNB, og á Íslandi.