Þau Ingveldur Einarsdóttir, Davíð Þór Björgvinsson og Sigurður Tómas Magnússon hafa af dómnefnd verið metin hæfust þeirra átta umsækjenda sem sóttu um lausa stöðu við Hæstarétt. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Öll þrjú eru dómarar við Landsrétt og því ljóst að þar mun losna önnur staða þegar eitt þeirra verður skipað í Hæstarétt.
Í Fréttablaðinu segir að með tilliti til mikils kynjahalla í Hæstarétti þá sé talið líklegt að Ingveldur verði skipuð, en af þeim sem nú sitja í Hæstarétti er einungis ein kona, Gréta Baldursdóttir. Hún er komin á eftirlaunaaldur en segir við blaðið að hún hyggi ekki á starfslok að svo stöddu.
Tveir hæstaréttardómarar, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson óskuðu í ágúst eftir lausn frá embætti dómara við Hæstarétt.
Mennirnir tveir voru afar reynslumiklir dómarar. Markús hafði verið dómari við Hæstarétt Íslands frá árinu 1994, eða í 25 ár. Hann var varaforseti Hæstaréttar 2002 og 2003 og forseti Hæstaréttar 2004 og 2005 og frá 1. janúar 2012 til loka árs 2016. Áður en að Markús var skipaður dómari var hann meðal annars prófessor í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands 1988 -1994. Enginn dómara við Hæstarétt í dag kemst nálægt því að hafa setið þar jafn lengi og Markús. Sá sem kemst næst því er Ólafur Börkur Þorvaldsson sem var skipaður í embætti árið 2003.
Þar á eftir kom Viðar Már sem var skipaður 2010. Hann var varaforseti Hæstaréttar Íslands frá byrjun árs 2012 og út árið 2016. Viðar Már var prófessor í skaðabótarétti við lagadeild Háskóla Íslands 1996 – 2010 og var auk þess settur hæstaréttardómari í aðdraganda þess að hann var skipaður í embættið, eða á árunum 2009 til 2010.