Alls sótti 41 um starf útvarpsstjóra sem var auglýst laust til umsóknar 15. nóvember síðastliðinn. Umsóknarfrestur rann út á miðnætti. Þetta kemur fram hjá RÚV í dag.
Starfið var auglýst eftir að Magnús Geir Þórðarson sagði starfi sínu lausu, en hann var skipaður þjóðleikhússtjóri frá og með 1. janúar næstkomandi. Magnús Geir hafði gegnt stöðu útvarpsstjóra frá árinu 2014.
Upphaflegur umsóknarfrestur rann út 2. desember en ákveðið var að framlengja hann um viku, eða til 9. desember.
Í tilkynningu frá stjórn RÚV kemur fram að stjórnin ráði útvarpsstjóra og að á næstu vikum verði farið yfir umsóknir. Stjórnin hafi jafnframt fengið ráðningafyrirtækið Capacent til að hafa umsjón með því verkefni. Stjórn RÚV stefni að því að ganga frá ráðningu nýs útvarpsstjóra í lok janúar 2020.
Elín Hirst hefur tilkynnt það að hún sækist eftir stöðu útvarpsstjóra. Auk hennar hefur Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir einnig gert það, sem og Axel Pétur Axelsson.