Ísland þarf að breyta reglum sem skylda stjórnarmenn og framkvæmdastjórn félaga til þess að vera ríkisborgarar eða búsettir í EES ríki. Þetta er niðurstaða rökstudds álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem birt var í dag.
Ísland gerir þá kröfu að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn félaga með staðfestu á Íslandi þurfi að vera ríkisborgarar EES ríkis eða búsettir þar. Samkvæmt ESA takmarkar Ísland með þessu frelsi félaga annarra EES ríkja til þess að ákvarða með frjálsum hætti hvernig stjórn þeirra skuli vera skipuð. Þetta geti þvingað fyrirtæki til þess að breyta núverandi samsetningu framkvæmdastjórnar eða stjórnar þess.
Í tilkynningu frá ESA kemur fram að á grundvelli viðurkenndrar dómaframkvæmdar og samningsbrotamáls um sama efni sem áður var til meðferðar telji ESA þessi skilyrði brjóta gegn grundvallarreglum EES-réttar um staðfesturétt.
Skilyrðin skapa takmarkanir fyrir félög
Þá kemur fram hjá ESA að þessi skilyrði skapi einnig takmarkanir fyrir félög annarra EES-ríkja sem vilja hefja starfsemi á Íslandi í gegnum skrifstofur, útibú eða dótturfélög, enda geti þau ekki valið stjórn með frjálsum hætti og skipað þá einstaklinga sem þau helst kjósa sér.
„Ríkisborgararéttur og búsetuskilyrði eru almennt ekki viðeigandi gildi til þess að meta hæfi og getu framkvæmdastjórnar og stjórnarmanna. Af þeirri ástæðu eru til staðar strangar reglur innan EES-réttar ásamt athugunum fyrir slíka einstaklinga í viðkvæmum geirum líkt og fjármálageiranum,“ segir í tilkynningunni.
Ísland þarf að uppfylla samningsskuldbindingar sínar innan 2 mánaða
Enn fremur kemur fram hjá ESA að stofnunin hafi sent Íslandi formlegt áminningarbréf um ofangreint í nóvember 2015 og í dag sé næsta skrefið tekið í meðferð samningsbrotamáls með því að senda frá sér rökstutt álit.
Loks geti ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins ef Ísland uppfylli ekki samningsskuldbindingar sínar innan tveggja mánaða.