„Þeim er velkomið að reyna að villa um fyrir fólki.“
Þetta sagði Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja og uppljóstrari í málum félagsins í Namibíu, aðspurður út í viðbrögð Samherja við umfjöllun um málið, sem birtist fyrst 12. nóvember, með umfjöllun Kveiks á RÚV, sem unnin var upp úr gögnum frá Wikileaks. Stundin og Al Jazeera birtu einnig umfjallanir upp úr gögnunum, og aðrir fjölmiðlar, víða um heim, hafa svo fylgt í kjölfarið.
Jóhannes var gestur í Kastljósi RÚV og tjáði sig þar meðal annars um hvernig honum fyndist umræða um málið hafa verið á Íslandi, Nambíu og víðar. Hann sagðist hafa fullt traust á rannsókninni í Namibíu, og þar hefðu yfirvöld unnið vel að henni frá því hann hefði komið til yfirvalda á haustmánuðum í fyrra, upplýst um mál og fengið stöðu uppljóstrara í kjölfarið. Hann sagði miklar hindranir hafa verið í rannsókninni, en samt hefði hún gengið vel, enda gögnin fyrir hendi og hægt að sannreyna þau.
Jóhannes sagði að það lægi fyrir, að um 800 milljóna króna greiðslur hefðu farið til hinna svonefndu hákarla í Nambíu, sem nú eru í haldi yfirvalda þar í landi, en hann bæri ekki ábyrgð á þeim nema að litlu leyti, þar sem hann hefði hætt störfum árið 2016. „Ég er bara ábyrgur fyrir 20-30% af þeim,“ sagði Jóhannes.
Þá sagði hann að rannsóknir væru í gangi núna, og það væri alltaf hægt að nálgast hann, ef það þyrfti frekari gögn. Hann óttaðist ekkert, og teldi að málið væri nauðsynlegt til að breyta hlutum til batnaðar í Namibíu og Angóla.