Gagnaumferð um Ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur var fjórðungi meiri en venjulega í óveðrinu í gærkvöldi. Hámarki náði umferðin klukkan 21:25. Þá var straumur gagna um Ljósleiðarann 26,1 prósent meiri en á sama tíma viku fyrr, miðvikudagskvöldið 3. desember, og hefur aldrei nokkurn tíma verið meiri.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gagnaveitu Reykjavíkur.
Enn fremur segir í henni að ljósleiðarinn nái til um 100.000 heimila og á umferðartölum um netið í gær hafi sést að fólk var fyrr komið heim og byrjað að nýta nettengingu heimilisins fyrir símana sína, sjónvarpið eða tölvuna.
„Fólk virðist hafa sótt sér fréttir af framvindu mála í gríð og erg strax eftir að heim var komið því um þrjúleytið var umferðin eins og gjarna sést undir kvöldmat á virkum dögum. Þetta hélt áfram og náði gagnaumferðin hámarki rétt fyrir klukkan hálftíu í gærkvöldi. Eftir það virðist fólk hafa verið farið að ganga til náða þó einhver, sem hefur kannski ekki orðið svefnsamt í ofsanum, hafi áfram sótt sér fréttir eða afþreyingu um Ljósleiðarann fram eftir kvöldi,“ segir í tilkynningunni.