Tryggingafélagið TM vonast til þess að fá viðskiptabankaleyfi næsta sumar. Kaup félagsins á fjármögnunarfélaginu Lykli, sem mun rúmlega tvöfalda efnahag TM, eru liður í þeirri vegferð að breikka rekstrargrunn félagsins og væra hann nær bankastarfsemi. Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð Viðarsson, forstjóra TM, í Markaðunum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag.
Þar segir Sigurður að TM hafi áhuga á að koma á fót banka sem skori stóru bankanna á hólm. „Sá banki væri ekki með þunglamalega yfirbyggingu eða fortíðarvanda á borð við gömul tölvukerfi, eins og stóru bankarnir þrír. Það er lúxus að geta byrjað frá grunni.“
Hann segir við Markaðinn að hann hafi ekki áhuga á að stofna alhliða banka heldur að TM muni finna sína syllu á markaðnum. „Til viðbótar við þá þjónustu sem Lykill býður, sem er að stærstum hluta fjármögnun bíla og atvinnutækja, munum við byrja á að bjóða innlán.“
Með kaupum TM á Lykli verður til félag með heildareignir yfir 80 milljörðum króna, og fjármögnun - þ.e. útlán og leigusamningar - verður stór hluti starfseminnar. Þannig má segja að kaup TM séu hluti af hagræðingu á fjármála- og tryggingamarkaði, þar sem fyrirtæki stækka og sameinast, til að auka arðsemi.
Í viðtalinu við Markaðinn segir Sigurður að þetta skref sé meðal annars stigið til að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti á tryggingamarkaði. Bílatryggingar séu umfangsmesta varann á þeim markaði og það megi búast við að iðgjöld vegna þeirra dragist saman í nánustu framtíð með tilkomu sjálfkeyrandi bíla þar sem slíkir muni að öllum líkindum lenda í mun fleiri óhöppum.
Stærsti eigandi TM er fjárfestingafélagið Stoðir með tæplega tíu prósent eignarhlut en svo koma þrír stórir lífeyrissjóðir: Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Birta og LSR með samanlagt tæplega þriðjungshlut.