Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um stuðningsgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla, er á dagskrá þingfundar sem hefst klukkan 10:30 í dag.
Til stóð að Lilja myndi mæla fyrir málinu á mánudag og var það þá sett á dagskrá, en það þarf að samþykkjast með afbrigðum vegna þess að málið kom inn í þingið eftir að frestur til að leggja fram þingmál rann út.
Lilja fékk hins vegar ekki að mæla fyrir málinu, sem hefur þegar verið afgreitt úr ríkisstjórn og þingflokkum allra stjórnarflokkanna, þá. Ástæðan er sú að þegar það kom að því að greiða atkvæði um hvort að bæta ætti málunum við dagskránna var ekki nægjanlegur fjöldi þingmanna í þingsal til að framkvæma slíka atkvæðagreiðslu. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, ávítti þingmenn vegna fjarveru þeirra. Þar voru þingmenn stjórnarandstöðunnar að verki en þetta bragð var til þess gert að marka þeim stöðu í samningum um hvaða mál kæmust á dagskrá fyrir þinglok.
Þegar dagskrá Alþingis var birt á þriðjudagsmorgun kom í ljós yrði reynt verður að nýju að mæla fyrir tveimur þeirra. Það eina sem rataði ekki aftur á dagskrá var umrætt fjölmiðlafrumvarp.
Heimildir Kjarnans herma að það hafi verið vegna andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins, sem situr í ríkisstjórn með flokki mennta- og menningarmálaráðherra. Hluti þingmanna hans hafa ítrekað lýst yfir mikilli andstöðu við frumvarpið.
Endurgreiðsla lækkuð í 18 prósent
Frumvarpið hefur tekið breytingum frá því var fyrst dreift á þingi í vor. Sú breytta útgáfa, sem var kynnt á föstudag, er útþynnt útgáfa af þeirri hugmynd sem upphaflega var lagt upp með, og hefur verið ráðandi í ferli sem málið hefur nú verið í árum saman, að endurgreiða kostnað við rekstur ritstjórnar í samræmi við endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda og hljóðritunar á tónlist.
Í þynningunni fólst aðallega að endurgreiðsluhlutfallið er lækkað úr 25 prósent í 18 prósent. Þessi breyting hefur fyrst og síðast áhrif á minni fjölmiðla. Það er að segja alla fjölmiðla nema þá allra stærstu. Ljóst var að í henni fólst að væntur stuðningur til þeirra myndi dragast saman um tæpan þriðjung en að það sem myndi falla stærstu miðlunum í skaut myndi lítið breytast.
Í nýju útgáfunni er stefnt að því að heildarstuðningsgreiðslur yrðu 400 milljónir króna en að hámarksgreiðsla til hvers og eins miðils yrði 50 milljónir króna. Að minnsta kosti þrjú fjölmiðlafyrirtæki: Sýn, Árvakur (útgáfufélag Morgunblaðsins) og Torg (Útgáfufélag Fréttablaðsins) myndu fá hámarksgreiðslu og líklega Frjáls Fjölmiðlun (Útgáfufélag DV og tengdra miðla) líka, ef þau myndu standast þau skilyrði sem sett voru fyrir stuðningi úr ríkissjóði. Það eru skilyrði á borð við að vera með öll opinber gjöld í skilum, að fleiri en þrír starfi á ritstjórn, að fjölmiðillinn hafi starfað í að minnsta kosti ár og að hlutfall ritstjórnarefnis í honum sé að minnsta kosti 40 prósent.
Til viðbótar við þetta átti að greiða sérstakan stuðning, alls fjögur prósent af launum allra starfsmanna fjölmiðils sem falla undir lægra þrep núgildandi tekjuskattskerfis. Ljóst er að sá sérstaki stuðningur myndi fara að uppistöðu til stærstu miðlanna líka.
Kjarninn miðlar er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir endurgreiðslu í frumvarpinu.